Íslendingar í vorgolfi á Islantilla
Hundruð íslenskra kylfinga eru nú víða í golfferðum í heitari löndum og keyra sveifluna í gang fyrir sumarið. Kylfingur.is er á Islantilla á Spáni sem hefur verið vinsælasta golfsvæði Íslendinga í þrjá áratugi og spjallaði aðeins við kylfinga sem hafa notið sín vel í góðu veðri og við frábærar aðstæður.
Islantilla er í Andalúsíu, 19 kílómetrum frá landamærum Spánar og Portúgals og 50 kílómetrum frá flugvellinum í Faro. VITAgolf býður upp á golfferðir til Islantilla og hefur fararstjórn verið í höndum Gylfa Kristinssonar síðustu árin.
Islantilla golfvöllurinn er frábær 27 holu golfvöllur sem hentar öllum kylfingum. Völlurinn er ákaflega fjölbreyttur skógarvöllur þar sem hver einasta braut hefur sinn sérstæða karakter. Á vellinum er margar minnisstæðar brautir. Teigar 1., 10., og 19. liggja upp við klúbbhúsið og því stutt að fara til að hefja leik. Flatir 9., 18., og 27. liggja jafnframt skammt frá klúbbhúsinu sem er mikill kostur. Vötn spila stóra rullu á mörgum brautum og setja skemmtilegan svip á völlinn. Útsýni af mörgum teigum er frábært og náttúrufegurð Spánar kemur þar vel í ljós. Islantilla völlurinn var tekinn í notkun árið 1991 og er því rétt rúmlega 30 ára gamall.
Golf frá morgni til kvöld
Klúbbhúsið við Islantilla golfvöllinn er skemmtilegt og starfsfólkið er einkar vinalegt og þjónustan góð. Í klúbbhúsinu getur verið gott að hafa viðkomu eftir níu eða átján holur áður en leik er framhaldið. Islantilla er í raun og veru paradís fyrir þá sem eru komnir til að spila golf. Völlurinn getur verið nokkuð strembinn á fótinn enda liggur völlurinn í hlíðum og hæðum en farþegar VITA golf hafa ótakmarkaðan aðgang að golfbílum. Á nokkrum holum má sjá afar tilkomumikið útsýni yfir ströndina og Islantillabæinn sem er skammt frá.
Hótelið í Islantilla er glæsilegt og var tekið í gegn fyrir tveimur árum og er undir rekstri Hilton hótelsamstæðunnar. Það er skemmtilega hannað og herbergin eru rúmgóð og þægileg. Á hótelinu er góð spa aðstaða þar sem hægt er að fara í sund, líkamsrækt eða nudd og eins er hægt að sóla sig við sundlaugar fyrir utan. Morgunverðarhlaðboðið fær fyrstu einkunn en þar er í raun hægt að fá sér allt sem hugurinn girnist áður en haldið er út á golfvöll. Kvöldverðarhlaðborðið er einnig mjög gott þar sem boðið er upp á fjölda rétta og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hótelið er rólegt og er auðvelt að slaka á eftir langan dag á golfvellinum. Fyrir þá sem vilja taka sér frí frá golfinu þá er hægt að slappa af í sundlauginni eða fara á ströndina sem er í um 800 metra fjarlægð frá hótelinu. Þá er einnig auðvelt að fara í nokkrar mínútur frá hótelinu ef fólk vill fá tilbreytingu og fara á veitingastaði í nágrenninu. Verðlag er ákaflega hagstætt og maturinn góður hjá Spánverjum.
Páll Ketilsson, ritstjóri kylfings.is fór og hitti hressa kylfinga sem voru við leik á Islantilla á 2. í páskum eins og sjá má í meðfylgjandi innslagi.
Hjónin Tómas Rasmus og Hlíf kona hans eru meðal gesta á Islantilla en þangað fóru þau nokkrum sinnum áður en Tómas fékk krabbamein í hægri fót með þeim afleiðingum að taka þurfti mesta hluta hans og notast Tómas nú við gerfifót frá Össuri. Meira um það síðar í viðtali Páls Ketilssonar við Tómas.