Fréttir

Edwin og Vigdís til liðs við Golfklúbb Þorlákshafnar
Frá vinstri, Edwin Roald vallarstjóri, Árni Hrannar Arngrímsson formaður og Vigdís Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri GÞ.
Föstudagur 28. mars 2025 kl. 09:49

Edwin og Vigdís til liðs við Golfklúbb Þorlákshafnar

Golfklúbbur Þorlákshafnar hefur ráðið Vigdísi Gunnarsdóttur og Edwin Roald til að sinna tímabundið framkvæmda- og vallarstjórastöðu GÞ út þetta ár. Á þessum tímamótum í rekstri GÞ er ráðning þeirra mikilvægur liður í að móta framtíð golfvallarins og styðja við stefnu klúbbsins um aukin gæði og bætta upplifun kylfinga, segir í frétt frá klúbbnum.

Vigdís, sem er með meistarapróf í lögfræði og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, hefur lengst af starfað í fjármálageiranum, en síðustu fimm ár hefur hún starfað hjá nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Par ehf., sem Edwin stofnaði fyrst utan um rannsóknir á kolefnisbindingu golfvalla, sem eiga rætur að rekja til Þorlákshafnar. Félagið hefur síðan sinnt rannsóknum og ráðgjöf á alþjóðlegum vettvangi, m.a. á Ólympíugolfvellinum Le Golf National í París og á Royal Portrush á Norður-Írlandi, þar sem Opna breska mótið fer fram í sumar.

Edwin hefur áratuga reynslu af hönnun golfvalla og tengdri ráðgjöf og mun sú þekking nýtast vel í þeim veigamiklu verkefnum sem framundan eru. Bæði munu vinna náið með stjórn GÞ að skipulagningu vallarins, félagsstarfs og öðrum mikilvægum þáttum rekstrarins.

Stjórn GÞ er afar ánægð með að fá Edwin og Vigdísi til liðs við klúbbinn á þessum tímamótum. Hæfni Edwins og innsýn í hönnun og rekstur golfvalla mun styðja við starfsemi klúbbsins. Edwin þekkir vel til Þorláksvallar, eftir að hafa hannað og gefið ráð um árlegar framkvæmdir á honum undanfarinn áratug og bindur stjórn GÞ miklar vonir við samstarfið við hann.

Stjórn GÞ þakkar Guðmundi Baldurssyni, fyrrverandi rekstrarstjóra og áður formanni, og Guðmundi Karli Guðmundssyni, vallarstjóra, fyrir ómetanlegt starf í þágu klúbbsins á undanförnum árum en þeir létu af störfum nýlega segir að lokum í frétt GÞ.