Ás með ás hjá Tóta
Íslendingar eru duglegir við golfiðkun suður á Spáni þessa dagana. Eftir töluverðar rigningar undanfarin mánuð er nú farið að sjá vel til sólar og spilamennskan færist á mun hærra plan með hækkandi hitastigi. Hópur góðkunnra íslenskra kylfinga lék í dag á Campoamor vellinum.
Þórður Sigurðsson einn af meðlimum hinnar landsfrægu „Mulningsvélar“ Valsmanna gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á hinni mjög svo krefjandi 15 holu. Holan spilaðist nokkuð löng í dag svo Þórður reif upp dræverinn á teig. Hann smellhitti boltann sem flaug í mildum sveig frá vinstri til hægri, lenti mjúklega á flötinni og rúllaði beint í holuna. Þetta er svo einfalt þegar það tekst. Ás með ás. Það gerist ekki betra á golfvellinum.
Það er mál manna að ástand Campoamor vallarins hafi sjaldan verið betra en nú en eins og sjá má á myndinni eru flatirnar á vellinum í frábæru ásigkomulagi. Þórður, eða Tóti eins og vinir hans kalla hann hefur verið iðinn við æfingar á Spáni í vetur. Leikur golf 3-4 sinnum í viku í góðra vina hópi. Hann hefur notað veturinn vel til að stilla driverinn með þessum líka frábæra árangri. Kylfingur.is óskar Tóta til hamingju með draumahöggið.