Fréttir

Norðmaðurinn brosir á ný eftir erfiðleika
Mánudagur 24. mars 2025 kl. 11:12

Norðmaðurinn brosir á ný eftir erfiðleika

Norðmaðurinn brosmildi, Viktor Hovland gat loks brosað á ný eftir erfiða og sigurlausa síðustu átján mánuði þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Valspar mótinu á PGA mótaröðinni um síðustu helgi. Hann endaði höggi betri en Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas sem gerði afdrifarík mistök í blálokin í lokahringnum.

„Þetta var magnað. Ég er búinn að vera í vandræðum síðasta eina og hálfa árið. Þó ég hafi unnið þetta mót er ég ekki alveg kominn á beinu brautina því ég átti nokkur léleg högg í þessu móti en þau kostuðu mig ekki mikil vandræði. Ég vona að ég sé að nálgast beinu brautina. Þetta er búið að vera erfitt,“ sagði Norðmaðurinn eftir sigurinn.

Hovland var þremur höggum á eftir Thomas eftir 15. holu í lokahringnum og allt leit út fyrir sigur Bandaríkjamannsins. Tvö léleg upphafshögg með drævernum kostuðu hann hins vegar tvö högg á meðan Norðmaðurinn mætti með tvo fugla og þó hann fengi skolla á lokaholunni þá var það í lagi.

Hovland vann stærsta sigurinn í golfinu í lok tímabils 2023, FedEx bikarinn sem er stigakeppnin á PGA mótaröðinni. Hann hreinlega týndi sveiflunni fínu eftir þann sigur og hefur nánast ekki séð til sólar síðan þá. Hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á síðustu þremur mótum og sagðist sjálfur vera í miklum vandræðum með sveifluna. „Það er mjög erfitt að mæta til leiks og vera með sjálfstraustið í núlli og hreinlega ekki vita hvert boltinn væri að fara. Það kom mér hreinlega mikið á óvart að ég skyldi ná þessum árangri núna,“ sagði Hovland. Bandarískir sjónvarpsmenn voru mjög hissa á ummælum Norðmannsins og töldu hann gera of háar kröfur til sín og gera lítið út sigri sínum í þessu móti sem færi fram á mjög erfiðum golfvelli. „Ég held að hann þurfi að slaka á í því að ná fullkomnun í sínum leik. Golf er erfið íþrótt og ekki hægt að ná fullkomnum leik,“ sagði annar lýsandi mótsins en þetta var sjöundi sigur Norðmannsins á PGA mótaröðinni en hann er 27 ára.

Justin Thomas er einn af bestu kylfingum heims síðasta áratuginn. Hann vann FedEx bikarinn 2017 á sínu þriðja ári á PGA mótaröðinni. Thomas hefur sigrað 15 sinnum á mótaröðinni og tvívegis hefur hann sigrað á PGA risamótinu, síðast 2022 en hann hefur ekki unnið mót síðan.

Hovland lék frábært golf á lokakaflanum í lokahringnum.

En svo komu vandræði hjá Justin á 16. braut.