Fréttir

Bjarki í toppbaráttunni í Frakklandi
Bjarki lék frábærlega í Frakklandi í dag.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
laugardaginn 18. september 2021 kl. 16:26

Bjarki í toppbaráttunni í Frakklandi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson léku í dag þriðja hring Hopps Open de Provence mótsins á Áskorendamótaröð Evrópu.

Guðmundur sem var í 7. sæti mótsins fyrir hring dagsins náði sér ekki eins vel á strik eins og í gær og lék á höggi yfir pari í dag. Við það féll hann niður í 25. sæti mótsins. Með góðum hring á morgun á hann frábæra möguleika á að styrkja stöðu sína á stigalistanum í baráttunni um að komast inn á lokamótið.

Bjarki átti frábæran hring í dag og lék á fjórum höggum undir pari þrátt fyrir að hafa fengið skolla á lokaholu dagsins. Við það fór Bjarki úr 23. sæti og upp í það 11. Besti árangur Bjarka til þessa á mótaröðinni er 66. sæti. Hann á því alla möguleika á að stórbæta þann árangur með góðri spilamennsku á morgun.

Lukas Nemecz frá Austurríki er efstur í mótinu á 18 höggum undir pari.

Staðan í mótinu