Haraldur Franklín mætir ferskari til leiks í ár
Haraldur Franklín Magnús er einn besti kylfingur Íslands, hann hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, árið 2012 en hefur undanfarin ár lítið keppt á Íslandi þar sem hann hefur reynt fyrir sér í atvinnumennskunni. Hann segist gefa atvinnumennskunni tvö til þrjú ár í viðbót og hefur farið aðeins öðruvísi leið í vetur en oft áður. Hann tók sér algert frí frá golfi eftir að síðasta tímabil kláraðist og kemur fyrir vikið ferskari til leiks á þessu tímabili. Hann er nýlega orðinn faðir, hefur verið að þjálfa ungviðið hjá GR í vetur og hefur gaman af því að gera upp gömul hús.
Haraldur var við golfkennslu að Korpúlfsstöðum þegar blaðamann bar að garði en áður en spjallið fór fram bauð Haraldur blaðamanni í skák. Ekki verður farið út í úrslit skákarinnar.
„Ég er búinn að vera elta atvinnumannsdrauminn síðan árið 2017 og hef mest verið á áskorendamótaröðinni, sem er næst sterkasta mótaröðin í Evrópu. Ég fékk nokkur tækifæri á stóru mótaröðinni og stefni á að komast inn á þá mótaröð en það eftirminnilegasta til þessa er að hafa spilað á British open árið 2018, ég mun lengi lifa á því. Maður þarf að spila mjög vel til að fá fullan keppnisrétt á Evróputúrnum og ég ætla að gefa mér tvö til þrjú ár, ég er 34 ára gamall og er þá hugsanlega að nálgast besta aldurinn en oft er talað um að golfarinn toppi milli þrítugs og fertugs. Á mínum besta degi get ég keppt við þá bestu og náði best í bráðabana í einu mótinu, tapaði honum reyndar en þetta sýnir mér að ég get þetta. Frá því að ég hóf atvinnumennskuna þá fannst mér ég alltaf bæta mig ár frá ári, covid kom inn í þetta svo ég tek það tímabil út fyrir sviga en ég hafði alltaf verið á betri stað, ár frá ári. Þar til í fyrra, þá fannst mér ég taka skref aftur á bak og það voru vonbrigði. Út af hverju er góð spurning, ég var nýorðinn faðir og kannski var hugurinn mikið hjá dóttur minni og konu, það er ekki gott að segja en ég er ekki að reyna finna neina afsökun, ég var bara ekki eins góður í fyrra og áður og þurfti því kannski að hugsa leikskipulagið upp á nýtt að einhverju leyti. Í fyrsta skipti síðan ég man ekki hvenær, tók ég algera hvíld frá golfinu eftir að tímabilinu lauk í nóvember, ég snerti ekki á kylfu vel fram á þetta ár og held að þessi pása hafi gert mér mjög gott, ég finn hvað ég var miklu ferskari að hefja æfingar fyrir næsta tímabil.“

Þúsund þjala smiður
Þar sem Haraldur tók algert frí frá golfinu um tíma í vetur, hefur þetta undirbúningstímabil verið öðruvísi en önnur.
„Það er margt sem ég hef breytt í vetur en ætla ekki að fara neitt nánar út í það. Ég æfi hér og þar, æfi undir stjórn þjálfarans míns í hermi sem hann er með, ég er með grasflöt sem ég segi engum hvar er, ég æfi í raun út um hvippinn og hvappinn. Ég taldi mig ekki þurfa neina breytingu á sveiflu eða öðrum undirstöðuatriðum íþróttarinnar, ég hef farið aðeins aðra leið og finn hvernig ég kem margfalt ferskari til leiks núna. Ég hef alltaf hugað vel að bæði líkama og sál, andlegi þátturinn er ekki síður mikilvægur og hef ég áfram unnið vel í honum í vetur en aftur, líklega var það besta sem ég gerði, að taka mér bara algera hvíld frá golfi. Ég er búinn að sinna nýfæddri dóttur minni og konu og hef notið þess tíma til hins ýtrasta, ég hef gaman af því að gera upp hús og hef ýmislegt fyrir stafni, alls ótengt golfinu. Það gerði mér mjög gott og ég finn hvað ég er tilbúinn í að hella mér á fullu núna í undirbúning fyrir tímabilið,“ segir Haraldur.

Hvað þarf Haraldur að gera til að komast „alla leið“ ?
„Það er gaman að velta þessu fyrir sér, það eru u.þ.b. fimm kylfingar í heiminum sem bera höfuð og herðar yfir alla aðra. Þar fyrir aftan er súpa af kylfingum og þegar maður er í þeirri súpu þá telur lítið að vera frá litla Íslandi, á áskorendamótaröðinni t.d. er ⅓ þeirra sem fá keppnisrétt, boðssæti, þ.e. landið sem heldur mótið, fær u.þ.b. 50 sæti af 156, sem þeir geta útdeilt til hinna og þessa. Ef Danmörk t.d. heldur mót, þá fá þeir boðssæti og geta þá sent danska kylfinga á viðkomandi mót, ég nýt ekki þessara fríðinda og þ.a.l. þarf ég að hafa meira fyrir að komast á mót. Svona er þetta bara, það þýðir ekkert að væla yfir þessu heldur bara leggja meira á sig.“
Golf og staða golfs á Íslandi
Haraldur nýtur til hins ýtrasta að keppa á Íslandi en atvinnumennskan skarast oft við mótin hér á landi, þess vegna hefur hann ekki getað keppt eins mikið á Íslandi og hann vildi.
„Ég hef alltaf haft gaman af því að spila á Íslandi en oftast skarast mótin á áskorendamótaröðinni við mótin hér. Ég náði einu móti í fyrra, Korpubikarinn, það var talsvert öðruvísi en mótin úti, vítavert vonskuveður en ég naut þess til hins ýtrasta. Þegar ég kem heim vil ég líka kannski frekar eyða tíma með konunni og dóttur í stað þess að fara í mót. Það breytist margt þegar maður verður faðir.
Það er gaman að sjá hvað golfið er orðin vinsæl íþrótt á Íslandi og mikil aukning í klúbbum landsins, sérstaklega hefur konum fjölgað sem er bara frábært. Þetta getur verið algert fjölskyldusport og það skemmtilegasta kannski við golfið, allir geta keppt sín á milli, óháð forgjöf, hún leiðréttir leikinn á milli spilara. Mér finnst samt mjög mikilvægt að afreksstarfið lýði ekki fyrir þennan aukna fjölda áhugagolfara. Ég hef heyrt af óánægju meðlima golfklúbba yfir því að völlurinn þeirra sé lokaður einhvern laugardaginn því það er verið að halda unglingamót fyrir bestu ungu kylfinga landsins. Klúbbmeðlimir eiga þvert á móti að vera ánægðir með að klúbburinn þeirra fái það traust að halda viðkomandi mót, ef einhver ungur úr þeirra klúbbi er á meðal keppenda, er það enn stærri bónus. Golf er íþrótt, afreksíþrótt og það má ekki gleyma því, ég er mjög ánægður með aukinn áhuga Íslendinga á golfi en áhugagolfið og afreksstarfið þarf að geta dansað í takti. Svo held ég að kylfingar megi margir hverjir hafa í huga að þeir sem sjá um völlinn, vita betur hvernig ástandið á viðkomandi velli er. Við Íslendingar erum kannski sér á báti með að vita ýmislegt best, við verðum öll sérfræðingar í handbolta í janúar og á vorin þykjast kylfingar vita best hvernig ástand þeirra golfvallar er, leyfum vallarstjórunum bara að vinna sitt starf, treystum þeim fyrir því.“
Fékk að heyra það á partýholu í Ástralíu
Haraldur hefur spilað í mörgum löndum en hvernig leggst tímabilið í hann og hvar finnst honum best, eða skemmtilegast að spila?
„Ég byrja á áskorendamótaröðinni í maí og hlakka mikið til, held að ég komi vel undirbúinn til leiks. Fyrsta mótið er annað hvort á Spáni eða Danmörku. Hvar mér finnst skemmtilegast að spila er góð spurning. Það getur verið mikill munur á milli landa, t.d. er grastegundin í S-Afríku öðruvísi og kylfan og boltinn bregðast öðruvísi við. Í S-Afríku er líka keppt í Jóhannesarborg sem er í 1600 metrum yfir sjávarmáli, kúlan fer því allt að 15% lengra en maður er vanur. Það er líka gaman að sjá menningarmuninn á milli allra þessara landa sem ég hef spilað í en áskorendamótaröðin er í gangi yfir veturinn en er þá spiluð í heitari löndum, það eru mót í Indlandi, Dubai og S-Afríku t.d. en ég ákvað að taka algera pásu í vetur. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að keppa í mörgum löndum og öll hafa þau sinn sjarma. T.d. er eitt það skemmtilegasta sem ég hef prófað, mót í Ástralíu en þar var lítil „partýhola,“ byggð eins og fótboltavöllur og áhorfendur alveg ofan í þér og þeir máttu öskra á þig eins og þeim sýndist. Þetta er stutt par 3 hola, ég fékk venjulega par en missti eitt upphafshöggið fyrir utan flöt og fékk svoleiðis að heyra það! Maður fékk fiðring í magann þegar maður vissi að það styttist í þessa sautjándu holu, mjög eftirminnileg golfhola. Kannski líkar mér best að spila í Skotlandi, það er er einhver sjarmi við að spila golf þar því íþróttin er upprunin þaðan. Miðaustur Evrópa kemur mér alltaf jafn skemmtilega á óvart, Pólland, Tékkland og fleiri lönd, mjög fallegir golfvellir, ódýrt að lifa þar, góður matur. Það er einfaldlega gaman að spila golf allsstaðar, líka á Íslandi.

Ég er bjartsýnn á framtíð golfs á Íslandi, við eigum marga bráðefnilega kylfinga sem ég reyni að fylgjast með, t.d. Perla Sól, Gunnlaugur o.fl. í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og annars staðar, t.d. Markús Marel. Golfíþróttin er orðin mjög vinsæl á Íslandi sem er auðvitað jákvætt en aftur, við megum ekki gleyma afreksgolfinu. Klúbbmeðlimir eiga að vera ánægðir þegar sterk mót eru haldin á þeirra völlum, það er oftast hægt að keyra stutta vegalengd til að komast í golf. Ég fer mikið í Þorlákshöfn, Grindavík og Suðurnesin eru opin, Selfoss og fleiri vellir á Suðurlandinu, kylfingar eiga alltaf að geta átt möguleika á að komast í golf. Ég hlakka til næstu ára, ég gef atvinnumanninum tvö til þrjú ár og ætla sjá hversu langt ég kemst,“ sagði Haraldur Franklín að lokum.

