Fréttir

Golf er höggleikur
Hvernig ætli Rory myndi ganga í punktakeppni?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 15. október 2025 kl. 16:05

Golf er höggleikur

Nánst öll opin golfmót í dag eru punktakeppni

„Mér finnst hafa gleymst undanfarin ár að þegar öllu er á botninn hvolft, þá er golf íþróttakeppni í höggum, ekki punktum,“ segir ónefndur afrekskylfingur. Viðkomandi keppti oft í Íslandsmótinu og myndi skrá sig í fleiri mót ef gamaldags höggleikur með og án forgjafar væri í boði.

Viðkomandi hefur sína skoðun á umræðunni um punktaleik á móti höggleik.

„Það hlýtur að skjóta skökku við að Íslandsmeistararnir í golfi, Dagbjartur Sigurbrandsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, gætu farið í opið mót, slegið vallarmetið en sigurvegari mótsins sé kylfingur sem var með 47 í forgjöf en hitti á frábæran hring á hans mælikvarða, skoraði rúma 50 punkta og vann mótið. Öll athyglin fer á þann sem sýndi mestar framfarir. Það má alls ekki skilja mig þannig að ég hafi á móti punktafyrirkomulaginu, það er líklega hluti ástæðu vinsælda golfíþróttarinnar því byrjendur geta óhræddir skráð sig í mót, vita að þeir geta tekið boltann upp ef illa gengur á viðkomandi holu. Þetta flýtir auðvitað fyrir leik og er almennt séð mjög gott fyrirkomulag, það má bara ekki láta öll mót snúast um hver skorar flesta punkta. Við þessir forgjafalægri eigum aldrei möguleika í svona mótum, erum venjulega í kringum 36 punktana, ekki nema að mjög illa gangi. En mjög vel spilaðir hringir skila okkur sjaldan yfir 36 punkta og þ.a.l. eigum við litla sem enga möguleika í opnum punktamótum. Því myndi ég vilja sjá golfklúbbana gera meira í að bjóða upp á gamaldags höggleik og að sjálfsögðu á að veita verðlaun án og með forgjöf. Eðlilega á kylfingur með 18 í forgjöf ekki möguleika í höggleik án forgjafar gegn kylfingi sem er í kringum 0. Að sama skapi á sá forgjafalági ekki mikinn möguleika í punktaleik. Ef keppt er í höggleik með forgjöf, verður til sanngjarnari keppni milli kylfinga. Ég skil vel að byrjandi vilji ekki vera með þá pressu á sér að þurfa klára allar holur en það má líka hafa höggleik og hægt að taka boltann upp, þá skrást bara X mörg högg á viðkomandi holu. En fyrir okkur sem erum lengra á veg komin í íþróttinni, að bjóða eingöngu upp á punktamót fælir okkur frá. Myndu ekki allir kylfingar elska að fá að etja kappi við núverandi Íslandsmeistara svo dæmi sé tekið,“ spyr viðkomandi.

Meistaramót með nettóskor til hliðsjónar

Þegar Kylfingur var að færa inn fréttir af meistaramótum golfklúbbanna en þau fóru flest fram í júlí, vakti athygli hans að þegar úrslit voru birt af Meistaramóti Golfklúbbs Álftaness, munaði minnstu að blaðamaður hefði gert mistök. Ef ekki hefði verið farið inn á Facebook-síðu klúbbsins til að fá myndir, hefði rangur kylfingur verið krýndur klúbbmeistari. Á Golfboxinu var fyrsti valmöguleiki, 1. flokkur. Eðlilegra hefði verið að hafa 1. flokkur brúttó sem fyrst valkost, þar kom fram hver lék á fæstum höggum en það er alltaf sá aðili sem er klúbbmeistari síns flokks. En í flokknum sem heitir bara 1. flokkur, kom fram hvernig viðkomandi kylfingi gekk með tilliti til forgjafar hans. Sama niðurstaða fékkst ef 1. flokkur nettó var valið.

Hvað finnst afrekskylfingnum um að hægt sé að sjá í einum flokki í viðkomandi flokki, hvernig kylfingar standa ef tekið er tillit til forgjafar?

„Fyrst þegar þetta var borið undir mig sagði ég þvert nei, meistaramótið á eingöngu að snúast um höggleik án forgjafar. En ef kylfingar hafa gaman af því að bera sig saman við þá bestu í viðkomandi klúbbi, þá sé ég kannski ekkert athugavert við það. Ef klúbburinn vill veita verðlaun þá mælir svo sem ekkert á móti því en þau verðlaun verða alltaf að vera í aukahlutverki. Ef ég fengi að ráða er ekki veitt verðlaun fyrir besta skor nettó en samt, þarna kemur í raun fegurðin við golfið í ljós, allir geta keppt við alla. Það er bara svo mikill munur að keppa í punktum, þeir eiga alls ekki að koma við sögu í meistaramótum en höggleikur með forgjöf milli allra sem spila fjóra daga, er hugsanlega bara skemmtileg viðbót við meistaramótin.

Byrjum samt á því að breyta hugsunarhættinum. Ég gæti trúað að margir byrjendur í golfi viti ekki einu sinni að golf er höggleikur, halda að golf sé punktaleikur. Sýnum golfinu þá virðingu sem leikurinn á skilið, með því að hugsa eingöngu um punkta er ekki verið að sýna þessari yndislegu íþrótt þá virðingu sem hún á skilið. Ég hvet klúbba landsins eindregið til að blanda mótum í höggleik við punktamótin. Þeir sem eru skemmra á veg komnir þefa upp punktamótin, hinir lengra komnu munu held ég þyrpast í höggleiksmótin,“ sagði X að lokum.