Fréttir

Golfhöllin er ein besta, ef ekki sú besta inniaðstaða á Íslandi
Pétur Björnsson í Golfhöllinni á Granda.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. apríl 2025 kl. 15:47

Golfhöllin er ein besta, ef ekki sú besta inniaðstaða á Íslandi

„Ég sé alveg fyrir mér að hermarnir geti nýst á sumrin líka,“ segir Pétur Björnsson, eigandi Golfhallarinnar sem er inniaðstaða með 15 golfhermum, staðsett á Fiskislóð úti á Granda. Reksturinn hefur gengið vel og Pétur nýtti tækifærið og keypti bilið við hliðina og næsta haust er ráðgert að opna sjö herma auk þess sem púttaðstaða verður fyrir hendi.
Pétur byrjaði ekki sjálfur að spila golf fyrr en um fór að hægjast hjá honum í vinnunni en hann bjó lengi í Hull í Englandi. Þar tók hann reyndar fyrstu höggin hjá kennara, fann sér bara ekki tíma til að byrja og hóf ekki golfiðkun fyrr en til Íslands var komið og konan hans hafði riðið á vaðið. Hann sá fyrir sér að þurfa annað hvort að byrja sjálfur eða finna sér nýja konu!

Byrjaði með golfhermi í skrifstofuhúsnæðinu og sá sér svo leik á borði.

„Ég ákvað árið 2021 að setja upp hermi í húsnæði þar sem ég er með skrifstofuna mína.  Þar var vannýtt rými sem myndi henta fullkomlega og hugsaði ég þetta fyrir fjölskyldu og vini. Út frá því náði hugsunin lengra og ég fór að skoða að opna golfhermahöll, svipaðist um eftir húsnæði og frétti af þessu húsnæði til sölu í þar næsta húsi. Þetta hentaði fullkomlega og við Margrét konan mín ákváðum að láta slag standa, keyptum hluta af húsnæðinu og gátum svo keypt það allt skömmu síðar. Við lögðum strax mikinn metnað í að hafa þetta eins og best verður á kosið og ég viðurkenni fúslega að það var gaman að fá umsögn tæknimannanna sem setja Trackman-herma upp um víða veröld, þeir vilja meina að aðstaðan hjá okkur sé ein sú besta sem þeir hafi sett upp herma í. Það er margt sem kemur til, básarnir þurfa að vera visst breiðir, góð lofthæð og svo skiptir hljóðvist miklu máli, að þetta verði ekki eins og í fuglabjargi. Það er líka mjög góð loftræsting og auðvitað verður að hafa góða aðstöðu fyrir fólk að setjast niður eftir „hring“ og fá sér drykk og spjalla saman. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst. Við byrjuðum í miðju covid og þá var aðsóknin frekar róleg en síðan þá hefur þetta vaxið stöðugt og er búið að vera mjög þétt bókað frá morgni til kvölds í vetur. Við sáum því að það væri grundvöllur fyrir að stækka enn frekar enda með ónotað rými við hliðina og þar verða sjö hermar og púttflöt. Sú aðstaða verður tilbúin næsta haust en tími golfhermanna er bestur eftir áramót, kylfingar fara mikið í golfferðir á haustin en ég sé alveg fyrir mér að hermarnir nýtist líka yfir sumarið, það er jú ekki alltaf sól og blíða á okkar ylhýra Íslandi og að mínu mati er þá skemmtilegra að spila hér inni við bestu skilyrði í stað þess að vera hundblautur úti á golfvelli. Auk þess er mjög erfitt að komast að á völlum höfuðborgarsvæðisins á góðum sumardögum en hermarnir eru líka mjög mikið notaðir til kennslu. Sumir golfkennarar eru með alla sína kennslu í golfhermum og þar liggja líka tækifæri á sumrin.“

Mjög rúmt er um alla og hljóðvistin er fyrsta flokks.
Hefði átt að byrja fyrr í golfi

Pétur sér eftir að hafa ekki byrjað að leika golf fyrr en hann er með 20,5 í forgjöf og stefnir að sjálfsögðu á lækkun.

„Ég er frá Raufarhöfn, það voru ekki mörg tækifæri til golfiðkunar þar svo ég spáði ekkert í því og ef ég á að vera hreinskilinn þá hélt ég að þetta væri ekki eitthvað fyrir mig. Ég ætlaði mér að verða skipstjóri, fór í Stýrimannaskólann en svo höguðust mín mál þannig að ég réðst til starfa í Hull, sá um afgreiðslu á íslenskum fiskiskipum sem komu og lönduðu, og seldu aflann þar. Þetta var þekkt hér áður fyrr, skipin fóru í „siglingu“ eins og það var kallað, börnum sjómannanna þótti alltaf gaman þegar pabbarnir komu heim, með dót og öðruvísi nammi en þau voru vön að fá. Ég fór út árið 1981 og þegar ég hugsa til baka þá átti ég engan frítíma fyrir golf þá en svo var það í kringum 1990 sem ég ákvað að byrja í golfi, keypti mér sett og gekk í golfklúbb í Hull. Innifalið voru þrír tímar í kennslu, ég mætti í þann fyrsta og síðan ekki sögunnar meir eins og Stuðmenn sungu forðum! Ég hafði bara engan tíma í þetta og það var ekki fyrr en við fluttum heim til Íslands árið 1997 og nokkrum árum eftir það, sem ég loksins lét slag standa. Konan hafði byrjað og varð fljótlega dolfallin yfir þessari góðu íþrótt og ég sá fram á að annað hvort þyrfti ég að finna mér nýja konu, eða demba mér í golfið. Síðari kosturinn varð að sjálfsögðu fyrir valinu og ég hef notið hverrar stundar síðan þá. Við gengum fljótlega í GR og vorum að fá inngöngu í Nesklúbbinn úti á Seltjarnarnesi en við búum í vesturbænum. Við ætlum að vera í báðum klúbbunum en þegar veðrið verður ekki gott, verður gott að geta komið hingað inn. Ég sé alveg fyrir mér að það eigi að geta orðið fín nýting á hermunum yfir sumarið,“ sagði Pétur að lokum.

Pétur rúllaði blaðamanni upp!

Að sjálfsögðu bauð Pétur kylfingi upp á hring og þurfti ekki að spyrja að leikslokum, Pétur sem eigandi, virtist vera með fjarstýringu á boltanum sínum!

Golfhöllin er til húsa að Fiskislóð 53-59.

Skyldi verða í boði að lúðra boltum þaðan út?

Framkvæmdir á stækkun eru hafnar og munu sjö nýjir hermar og púttflöt verða tilbúin í haust.