Sjóðandi heitur Gufudalsvöllur tekur breytingum
Golfklúbbur Hveragerðis (GHG) fagnaði 30 ára afmæli sínu í sumar en klúbburinn var stofnaður 21. júní árið 1993 og verður afmælismót haldið um helgina. Klúbburinn hefur vaxið og dafnað að undanförnu og í dag eru um 230 meðlimir í honum. Völlurinn sem heitir Gufudalsvöllur var upphaflega teiknaður sem átján holu völlur en síðan árið 2000 hefur völlurinn verið níu holu völlur. Talið er að Gufudalsvöllur eigi engan sinn líkan í heiminum, þ.e. að enginn annar völlur er við hverasvæði. Þetta einsdæmi hefur reyndar breyst í pínu vandamál að undanförnu.
Einar Lyng Hjaltason er rekstrarstjóri GHG en hann er auk þess PGA menntaður og hefur sinnt kennslu í klúbbnum til fjölda ára. Einar byrjaði á að segja frá vandamálinu sem upp hefur komið vegna hverasvæðisins. „Við höfum átt í stríði við fyrstu flötina sem liggur við hverasvæðið en eftir jarðskjálfta, líklega í kringum 2010 myndaðist jarðsprunga og hitinn undir flötinni jókst með árunum. Í apríl árið 2017 fórum við með kjöthitamæli á flötina og á tíu sentimetra dýpi mældist 50 gráðu hiti og þá varð jarðsig í flötinni svo við settum annað grín aðeins neðar og til hliðar en það var líka komið hitasvæði þar, það mikill hiti að starfsmaður hjá okkur brenndi sig þegar hann var að vökva flötina. Því fórum við aldrei inn á þá flöt en notum hana sem viðgerðarflöt en íslenska grasið lifir illa með svona hita undir sér og því erum við að gera tilraunir með hitaþolnara gras sem er sambærilegt Bermúdagrasi. Eftir þessar jarðhræringar var ákvörðun tekin um að búa til þrjár nýjar brautir og eru framkvæmdir hafnar má segja, við erum komnir með efnið í brautirnar því það eru aðrar framkvæmdir í gangi í bænum og okkur áskotnaðist jarðvegur þaðan. Við bíðum bara eftir að jarðýtan mæti og ýti fyrir nýju brautunum sem verða suðvestur af núverandi velli, þ.e.a.s. nær bænum. Völlurinn var upphaflega teiknaður sem átján holu völlur og við erum að nýta okkur þrjár holur úr þeirri stækkun en „layout-ið“ á vellinum mun þá breytast, það á eftir að koma betur í ljós hvernig þær breytingar verða. Það verður leiðinlegt að missa þessa fyrstu flöt því það var mjög sérstakt að vera slá í kringum þetta hverasvæði, sumir segja að það sé einstakt í heiminum. Við verðum bara að fara varlega, tíu metrum fyrir aftan fyrstu flötina er kominn hver þar sem rýkur upp 100 gráðu heitt vatn og þess vegna höfum við þurft að breyta þessu svæði í „out of bounds“, svæðið er kyrfilega merkt og stranglega bannað að fara þarna inn á. Þetta er hvimleitt en það er víst lítið hægt að gera í þessu, það er erfitt að glíma við móður náttúru. Þetta hefur verið áskorun, við erum með nýjan vallarstjóra, Garðar Guðmundsson sem er að útskrifast úr hinum virta Elmwood college sem kennir golfvallarfræðin og umhirðu þeirra en að glíma við svona vandamál er hvorki kennt í þeim skóla né nokkrum öðrum.“
Mikill vöxtur en Gufudalsvöllur áfram níu holur
Mikið hefur fjölgað í klúbbnum á undanförnum árum, sérstaklega hefur yngri kylfingum fjölgað. „Í fyrsta skipti í langan tíma gátum við haldið meistaramót fyrir unglingana okkar, það segir allt um fjölgunina sem hefur orðið á undanförnum árum en í dag erum við með um 230 meðlimi, vorum með um 120 þegar ég tók við sem rekstrarstjóri árið 2016. Við höfum tekið skálann mikið í gegn og erum komin með golfhermi sem er í golfskálanum og það er auðvitað mikil bylting en við söknum mjög Hamarshallarinnar sem fauk í aftakaveðri í fyrra, þar gátum við verið að æfa yfir vetrarmánuðina, bæði stutta spilið og púttin. Við nýttum okkar tíma mjög vel inni í blöðrunni eins og við kölluðum húsnæðið líka og söknum hennar, vonandi munu bæjaryfirvöld byggja nýja höll, það myndi nýtast öllu íþróttastarfi í Hveragerði svo vel því íþróttahúsið ræður ekki við þann fjölda sem þarf að æfa inni yfir veturinn.
Varðandi framhaldið held ég að það sé gott markmið hjá klúbbnum að halda sér sem vinsælum níu holu golfvelli nálægt höfuðborgarsvæðinu, í stað þess að stækka í átján holur,“ sagði Einar að lokum.
