Mun rísa átjan holu völlur á Eiðum?
Egilsstaðabúar og nærsveitungar leika sitt golf í Fellabæ á Ekkjufellsvelli sem er níu holur
„Við njótum Ekkjufellsvallar í dag en stærri og betri völlur á Eiðum er eitthvað sem kæmi sér vel fyrir kylfinga,“ segir Friðrik Bjartur Magnússon, formaður Golfklúbbs Fljótdalshéraðs. Golfvöllur klúbbsins heitir Ekkjufellsvöllur og er í Fellabæ sem er rétt hjá Egilsstöðum. Friðrik er ekki nema 32 ára gamall og án þess að nákvæm rannsókn hafi farið fram er ekki ólíklegt að hann sé yngsti formaður golfklúbbs á Íslandi. Friðrik hafði verið í stjórn, dreif sig í PGA-námið og er að ljúka því og sá fyrir sér að best yrði einfaldlega að taka við formennskunni og láta gott af sér leiða.

Hvað olli því að Friðrik ákvað að bjóða sig fram sem formaður?
„Ég var búinn að vera kenna lengi, sá um mótahaldið og ýmislegt annað og fannst þetta liggja beinast við. Í PGA-náminu er komið inn á rekstur golfklúbba svo ég er með mínar hugmyndir um hvernig hægt sé að gera hlutina ennþá betur en með því er ég alls ekki að gagnrýna það sem hefur verið gert hér áður, klúbburinn hefur verið mjög vel rekinn að mínu mati, það koma alltaf nýjar áherslur með nýju fólki.“
Friðrik er liðtækur kylfingur og vel það, hann er með um 5 í forgjöf en það eru forgjafalægri kylfingar í klúbbnum en síðasta félagatal gaf töluna 132 meðlimi.
„Það hefur orðið aukning hjá okkur undanfarin ár, sérstaklega hafa konurnar verið duglegar að bætast í hópinn og það er mjög jákvætt. Við settum upp golfhermi úti á Eiðum fyrir fimm árum en settum svo upp nýja Trackman herma inni á Egilsstöðum í vetur og það kom mjög vel út og hefur verið mikil ásókn í herminn. Þessi tæki eru ótrúleg má segja og fyrir okkur kennarana er þetta eins og himnasending, kylfingurinn sér allar tölur sem skipta máli og því aðveldara að grípa inn í og laga það sem þarf að laga. Það er ekki spurning í mínum huga að þessi inniaðstaða út um allt land mun bæði fjölga afrekskylfingum í framtíðinni og auka hróður golfíþróttarinnar og fjölga kylfingum.
Við höfum verið með sterka sveit í sveitakeppninni, það eru nokkrir forgjafalægri en ég og er alltaf gaman þegar við býtumst í meistaramótinu, ég er strax farinn að hlakka til þess skemmtilega móts en þar fyrir utan erum við með opin mót og innanfélagsmót. Það er ekkert nýtt á döfunni í sumar en við ætlum okkur að efla meistaramótið, það hefur verið góð stemning í kringum það en við ætlum að reyna bæta hana enn frekar. Svo munum við halda Sveitakeppni Austurlands í sumar, það er skemmtilegt mót allra klúbba á Austurlandinu. Það er mikill hugur í okkur fyrir þetta golfsumar,“ segir Friðrik.
Ekkjufellsvöllur
Egilsstaðabúar og nærsveitungar leika sitt golf á Ekkjufellsvelli, sem er stutt frá Egilsstöðum. Völlurinn er níu holur og eru ekki uppi áform um stækkun þar en oft hefur komið upp umræða um nýjan golfvöll á Eiðum, sem yrði þá átján holur en Eiðar eru rúma tíu kílómetra frá Egilsstöðum.
„Ekkjufellsvöllur er níu holur og mun líklega alltaf verða þannig og fólk er sátt við að hafa hann níu holur, þ.e. aldrei hefur að mér vitandi sprottið upp umræða um stækkun vallarins. Umræðan hefur frekar verið á þá leið að gera átján holu golfvöll á Eiðum, sem er rúma tíu kílómetra frá Egilsstöðum. Að renna tíu kílómetra til að komast í golf þykir ekki mikið en hvort eða hvenær ráðist verður í þessa framkvæmd treysti ég mér ekki til að segja til um. Við erum sátt í Fellabæ, átján holu völlur að Eiðum yrði bara bónus,“ sagði Friðrik að lokum.