Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Miðar á tunglið, ef það klikkar, nær hann til stjarnanna.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 25. apríl 2025 kl. 16:52

Miðar á tunglið, ef það klikkar, nær hann til stjarnanna.

Orðinn helsjúkur af golfbakteríunni

Óli Stefán Flóventsson er ekki þekkt nafn í golfheiminum en knattspyrnumenn gætu kveikt á nafninu en hann lék lengi með Grindavík í efstu deild. Óli spilaði líka með Fjölni og Vard Haugesund í Noregi. Eftir leikmannaferilinn tók þjálfun við er hann tók við Sindra frá Hornafirði. Eftir að hafa komið Sindamönnum upp um deildir kom kallið frá heimafélaginu og náði Óli eftirtektarverðum árangri með Grindavíkurliðið. KA á Akureyri sóttist eftir starfskröftum Óla og eftir gott fyrsta ár var hann látinn fara um mitt sumar á öðru ári. Leiðin lá því heim á Hornafjörð þar sem hann hefur búið ásamt eiginkonunni sem er þaðan og börnum þeirra. Hann tók aftur við Sindra, kom þeim upp í 2. deildina en lét staðar numið eftir það tímabil og var í fríi frá þjálfun í fyrra. 
Þegar Óli tók aftur við Sindra upphófst nýr kafli hjá honum má segja, hann tók að sér markvissa uppbyggingu félagsins og þróaði verkefni sem hann kallar „Okkar leið.” Verkefnið snýst um að að félag skilgreini árangur út frá réttum forsendum sem nær betur og dýpra en úrslit í næsta leik. 
Óli hefur verið með fyrirlestra og verið ráðgjafi hjá félögum tengt verkefninu “Okkar leið.”
Það kæmi blaðamanni mikið á óvart ef Óli Stefán verður ekki kominn í stórt hlutverk hjá knattspyrnufélagi á næstunni en nóg um knattspyrnuþjálfarann og -ráðgjafnn Óla Stefán, snúum okkur að kylfingnum Óla Stefáni.
Lýsandi mynd um kylfinginn Óla Stefán, er „úti á æfingasvæði“ í stað þess að spila hring í Trackman.

Óli er með fimmtán í forgjöf í dag en ætlar sér undir tíu en hvort það gerist í sumar er aukaatriði hjá honum.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Ég byrjaði í golfi sem pjakkur í Grindavík en þar sem fótboltinn tók svo mikinn tíma gaf ég mér aldrei tíma til að hella mér af fullum krafti út í íþróttina. Þegar ég lauk síðasta kafla í þjálfun hjá Sindra fór ég að gefa mér meiri tíma í golfið og er má segja „all in“ í dag. Þegar ég fæ áhugann á ákveðnum hlutum þá verður nett þráhyggja til hjá mér en bæði hef ég spáð mikið í sveiflunni og æfi mikið. Til að lýsa golf-þráhyggju betur þá hef ég t.d lesið átta bækur um flestar hliðar golfsins síðasta árið. Það var í raun bara í fyrra sem ég gaf mér almennilegan tíma í golfið, fór í fyrsta mótið mitt sem var stigamót í byrjun maí. Ég var svo lélegur í mótinu (spilaði níu holur á 67 höggum) og ég man að ég stóð út á bílastæði eftir mótið og hugsað alvarlega tvo kosti, að hætta þessu á stundinni eða að taka golfið föstum tökum og æfa það eins og ég þjálfa fótboltann! Ég valdi sem betur fer seinni kostinn og fór að spá meira í hlutunum. Í framhaldinu fór ég að finna fyrir metnaði varðandi golfið og þegar ég finn fyrir þannig metnaði þá veit ég að ég er að fara að hella mér af fullum krafti í það sem þarf að gera til að bæta mig. Ég fór að æfa miklu meira og miklu markvissara, dró t.d. fram púttmottu sem systir mín gaf mér einhvern tíma í jólagjöf, og hef æft púttin af miklum krafti í allan vetur. Fljótlega breytti ég gripinu í “left hand low” sem hjálpaði mér og breytti mjög miklu fyrir mig. Ég pútta af 2,5 metrum og bjó til keppni í því hversu oft ég hitti í röð og er metið mitt í dag 115 af því færi. Ég er búinn að vera nokkuð duglegur að fara í herminn okkar hér á Hornafirði og hef mikið verið á æfingasvæðinu þar, þ.e. ég var ekki mikið að spila heldur að læra á tölurnar sem koma fram varðandi sveifluna og vinna me þær, það hefur hjálpað mér mjög mikið.

Þessar æfingar, æfingar heima með pútterinn og þar fyrir utan að lesa golfbækur, mun vonandi leiða af sér að ég spila betur í sumar og ef það gerist þá auðvitað lækkar forgjöfin. Ég tel mig eiga geta komist í eins stafa forgjafatölu og hef sett það sem markmið, sem er auðvitað mjög krefjandi en alveg raunhæft. Hvort það svo gerist í sumar eða ekki er auðvitað bara aukatriði en markmiðið heldur mér við efnið. Ég hef spáð mikið í væntingastjórnun, byrjaði raun á því í sambandi við þjálfunina í fótboltanum, hvað er árangur? Er bara góður árangur í fótbolta ef titill vinnst? Ef félög geta skilgreint sinn árangur út frá sínum forsendum, verður vinnan miklu innihaldsríkari og markvissari til að ná settum og raunhæfum markmiðum. Sama gildir í golfinu, ég er ekkert að svekkja mig um of á lélegu höggi, reyni bara að læra af því og gera betur næst. Það er alltaf gott að setja sér háleit markmið og vera sáttur við ferðalagið þótt þú komist ekki alla leið, að miða á tunglið og hitta ekki þá enda ég á meðal stjarnanna, sem er ekki slæmt. Ég ætla mér að komast niður fyrir 10 en ef ég myndi bara lækka mig niður í 14,9 get ég verið sáttur því ég náði þó að lækka mig. Geri þá bara betur á næsta tímabili.“

Golfvöllurinn á Hornafirði er einstaklega fallegur.
Golfvöllurinn á Hornafirði einn sá fallegasti á landinu

Golfvöllurinn á Hornafirði er talinn einn sá fallegasti á landinu og m.a. gaf yfirkennari Golfklúbbs Suðurnesja og þrefaldur Íslandsmeistari, Sigurpáll Geir Sveinsson, vellinum hæstu einkunn síðasta sumar.

„Ég get ekki betur séð en völlurinn sé tilbúinn en auðvitað þekkja þeir sem sjá um völlinn það betur en ég. Við erum ekki vanir snjóþungum vetrum en það er oft kalt. Þessi vetur var mildur hér eins og víðast hvar á Íslandi og þá hlýtur það að leiða til þess að grasið sé fyrr að taka við sér. Völlurinn er orðinn grænn og mér skilst að hann opni helgina 25. apríl.

Mótahaldið hér verður með hefðbundnu sniði skilst mér í sumar, Glacier Journey stigamótaröðin hefst 8.maí. Ég hlakka til að byrja og verð vonandi bara betri en í “martraðar”-mótinu í fyrra. Fegurðin við golfið er að það er svo margt annað sem hægt er að taka út úr því en bara spilamennskuna. Maður er nánast alltaf í góðum félagsskap, maður fær góða hreyfingu, maður andar að sér fersku íslensku lofti og að spila golf á Hornafirði t.d. með alla þessa fegurð allt í kring, þetta er í raun nóg, góð spilamennska er bara bónus. Það er líka annað sem heillar mig við golfið, við áhugafólkið getum endalaust bætt okkur í hinum og þessum þáttum leiksins og maður sér það á forgjöfinni, þetta finnst mér ótrúlega heillandi því golfið er svo fjölbreytt, þú ert með upphafshögg með dræver, þú ert með löng högg úti á velli, þú ert með stutta spilið og svo eru það púttin. Svona væri endalaust hægt að telja upp hina og þessa þætti leiksins þar sem hægt er að bæta sig. Svo geta auðvitað allir keppt sín á milli, ég gæti boðið Rory í sanngjarnan leik hér á Hornafirði, forgjöfin jafnar leikinn út á milli okkar. Það er engin önnur íþrótt sem býður upp á þetta. Ég hlakka mikið til sumarsins og eigum við ekki bara að enda þetta á kokhraustum nótum, ég mun verða kominn niður fyrir 10 í forgjöf þegar þessu golftímabili lýkur, annars máttu kýla mig í magann,“ sagði Óli Stefán að lokum.