Lærir afbrotafræði en dreymir líka um atvinnumennsku
Guðrún Jóna Nolan er efnilegur kylfingur og stundar nám í Bandaríkjunum og spilar golf. Afi hennar, John Nolan kenndi í mörg ár hjá GR.
„Ég byrjaði að spila golf þegar ég var tveggja ára gömul. Golf hefur alltaf verið stór hluti af fjölskyldunni okkar. Báðir foreldrar mínir og amma og afi spila. Svo ólst ég eiginlega upp á golfvelli því mamma var með veitingasöluna á Garðavelli á Akranesi,“ segir kylfingurinn Guðrún Jóna Nolan Þorsteinsdóttir en hún var í toppbaráttunni á Íslandsmótinu á Hvaleyri í sumar og endaði í 4. sæti.
Afi Guðrún Jónu er John Nolan en hann vann við kennslu hjá Golfklúbbi Reykjavíkur í mörg ár. Guðrún Jóna flutti með foreldrum sínum til Brighton í Englandi þegar hún var sex ára og kylfurnar voru aldrei langt undan hjá stelpunni frá Íslandi.
Þar lék hún í mörgum telpna- og stúlknamótum og sigrað á nokkrum. Þá á hún eitt vallarmet. Undanfarin ár hefur hún m.a. tekið þátt í Enska meistaramótinu og fleiri keppnum.
Guðrún varð tvítug í vor en hún er á þriðja ári sínu í UCA háskólanum í Bandaríkjunum að læra afbrotafræði. „Við höfum bara spilað í einu móti á þessari önn í Texas og ég lenti í 4. sæti í einstaklingskeppninni. Þegar ég var hjá mömmu og pabba í Englandi yfir sumarið áður en ég fór í skólann starfaði ég á tveimur stöðum til að safna mér inn pening fyrir skólanum. Ég vann á hóteli og á krá og það gekk bara vel.“
Guðrún Jóna hefur einu sinni keppt fyrir Íslands hönd en það var á Evrópumeistaramótinu með kvennalandsliðinu árið 2024 í Madríd á Spáni og segir hún það hafa verið virkilega gaman.
Hún hefur einu sinni áður tekið þátt í Íslandsmótinu, á Akureyri árið 2021. Hún var spennt fyrir mótinu í sumar en hún vildi líka koma og heilsa upp fjölskylduna hér heima. „Mér finnst Íslandsmótið mjög skemmtilegt mót og svo elska ég Keilisvöllinn. Hann er mjög fallegur og svo gekk mér mjög vel í mótinu.
En hver eru markmiðin hjá Guðrúnu Jónu?
„Ég myndi elska að verða atvinnumaður að loknum námsferli mínum sem íþróttamaður í Bandaríkjunum og fara í gegnum úrtökumót fyrir LPGA.„ Hins vegar hef ég líka áætlanir um að taka meistaragráðu mína í Bretlandi þegar ég er búinn. Svo við sjáum til hvað gerist, “ segir verðandi afbrotafræðingur og kylfingur.
Kylfingur.is sagði frá Guðrúnu Jónu fyrir rúmum áratug. Sjá hér.
Guðrún Jóna á Íslandsmótinu í sumar.
Guðrún Jóna umvafin íslenska fánanum í myndatöku í skólanum hennar.
John Nolan var golfkennari hjá GR 1978 til 1984 og svo kom hann aftur 2001. Hér er hann með ungum íslenskum kylfingum í GR þegar hann starfaði þar.