Hildur smellti í draumahögg á Montecastillo
Það eru nokkur draumahögg búin að líta dagsins ljós hjá íslenskum kylfingum á nýju ári. Hildur Harðardóttir, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja er nýr einherji en hún átti draumahögg á hinum magnaða Montecastillo Barceló golfvelli á Spáni um páskana.
Hildur reif upp dræverinn á 8. holunni og hitti fínasta högg sem lenti rétt við flöt og rann ofan í. Óskar Halldórsson, eiginmaður Hildar fagnaði vel og innilega og óskaði konu sinni til hamingju. Hann hefur stundað golfíþróttina í áratugi og er ekki einherji. Styttra er síðan Hildur byrjaði í golfi en hún hefur verið dugleg að leika golf undanfarin ár með sínum bónda og fleiri vinum og vinkonum.
Kylfingur.is hvetur nýja einherja að senda mynd og stuttan texta þegar þeir hafa farið holu í höggi. Sjá má netföng neðst á forsíðu kylfingur.is