Sjálfboðaliðar öflugir við hreinsunarstarf
Vestmannaeyjavöllur varð fyrir barðinu á vetrarlægðunum
Um síðustu helgi mætti fjöldi félagsmanna Golfklúbbs Vestmannaeyja ásamt nokkrum vallarstarfsmönnum frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar til vinnudags á Vestmannaeyjavelli.
Völlurinn hefur orðið fyrir barðinu á snörpum lægðum í vetur. Talsvert af grjóti og lausamöl hefur skolast upp á völlinn og 17. teigurinn svo gott sem hvarf í heilu lagi í stórsjó og ofsaveðri sem gekk yfir völlinn í febrúar. Vallarstarfsmenn frá GM komu með tæki með sér ofan af landi til að blása grjótið af brautunum.
Í tilkynningu frá GV segir að vinnudagurinn hafi gengið vel og þar er öllum sjálfboðaliðum þakkað fyrir vinnu sína, sér í lagi vallarstarfsmönnum frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Þá segir að uppbygging á 17. teig sé hafin og að völlurinn verði í toppstandi í sumar en Íslandsmótið í golfi verður haldið á Vestmannaeyjavelli dagana 4.-7. ágúst nk.