Rory vann græna jakkann eftir alvöru dramatík og bráðbana
Rory Mcilroy bauð upp á alvöru dramatík og mestu spennu í mörg ár í sögu Masters mótsins þegar hann sigraði Justin Rose í bráðabana á 18. holu og tryggði sér fjórða risatitilinn. N-Írinn setti eins metra pútt ofan í fyrir fugli eftir að Rose hafði rétt misst. Rory fagnaði gríðarlega og golfheimurinn allur. Rory náði þá markmiði sem hann hefur reynt við í ellefu ár, að sigra á fjórða risamótinu og ná þannig alslemmunni, aðeins sjötti kylfingurinn í sögunni.
Rory sýndi margar af sínum bestu hliðum í lokahringnum og virtist vera kominn með aðra höndina inn í græna jakkann, og það tvisvar sinnum á síðustu níu holunum. Iðulega er talað um það að Masters hefjist ekki fyrr enn á 10. holu í lokahring. En allt kom fyrir ekki, ekki einu sinni á síðustu holunni. Hann leiddi með höggi eftir frábæran fugl á 17. holu en fékk ótrúlegan skolla á 18. holunni. En hann kom enn og aftur til baka í bráðbananum og kláraði dæmið.
Það voru margir sem spáðu því að þetta yrði einvígi tveggja efstu kylfinga, Rory Mcilroy og Bryson Deschambeau en annað kom á daginn. Rory tapaði tveggja högga forskoti á fyrstu tveimur holunum en hann fékk tvöfaldan skolla á 1. holu og Bryson fékk par og fugl á annarri holu og tók forystuna. Rory kom til baka með frábæru golfi og hirti forystuna með fugli á 3. og 4. braut og síðan á 9. og 10. holu. Bryson missti taktinn og Rory var kominn með fimm högga forskot á næstu menn eftir tíu holur. Allt stefndi í sigur N-Írans. Aðrir komu þó inn í baráttuna, Justin Rose var í miklu stuði, fékk tíu fugla á hringnum og gerði Rory lífið erfitt. Fleiri blönduðu sér í toppbaráttuna sem Rory „bauð í“.
Rory tapaði höggi á 11. holu en var í góðri stöðu með 4 högga forskot. 13. braut er par 5 og býður upp á dramatík. Þar urðu Rory á hrapaleg mistök þar sem hann sló stutt þriðja högg í lækinn fyrir framan flötina. Hann tapaði höggi á næstu. Rose tók forystu þegar hann fékk fugl 16. holu en tapaði höggi á 17. holu. Svaraði því með mögnuðum fugli á 18. holu. Rory sló magnað högg á á 15. holu og fékk fugl og aftur á 17. holu og leiddi með höggi þegar hann gekk af 17. flötinni. Þurfti því „bara“ par á síðustu holu mótsins. Hann sló frábært upphafshögg en innáhöggið af 110 metrum var mjög slakt og endaði í glompu. Rory náði ágætu höggi og átti tveggja metra pútt eftir fyrir sigri á Masters og alslemmunni, sigri á öllum risamótunum. Púttið fór ekki ofan í og því þurftu félagarnir úr Ryderliði Evrópu að fara í bráðabana. Þar hafði Rory betur og sýndi úr hverju hann er gerður með þremur frábærum höggum.
Í spjalli á Sky sports höfðu fyrrum meistarar eins og Nick Faldo á orði að þetta væri stærsta afrek í sögunni síðan Tiger vann alslemmuna. Það er erfiðasta verkefni bestu kylfinga heims, að vinna öll fjögur risamótin. Rory er kominn í hóp með öðrum fimm sem hafa unnið þetta magnaða afrek. Hinir fimm sem hafa unnið alslemmuna eru: Gene Sarazen, Ben Hogan, Gary Player, Jack Nicklaus og Tiger Woods.
Rory þakkar Justin Rose fyrir magnaða keppni eftir bráðabanann.