Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Leiran heldur breytingum síðan fyrir Íslandsmót
Bergvíkin er af mörgum talin vera drottning par 3 holanna á Íslandi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 19. apríl 2025 kl. 07:00

Leiran heldur breytingum síðan fyrir Íslandsmót

„Síðasta sumar var mjög gott hjá klúbbnum. Hápunkturinn var án efa Íslandsmótið í höggleik, sem heppnaðist einstaklega vel – bæði hvað varðar framkvæmd og viðbrögð. Breytingarnar sem gerðar voru á vellinum mæltust afar vel fyrir og því hefur verið ákveðið að halda þeim áfram,“ segir Sverrir Auðunsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja.
Sverrir, sem áður gegndi formennsku í Golfklúbbi Grindavíkur, er nú að hefja sitt þriðja tímabil sem framkvæmdastjóri GS og segist líða afar vel í starfi.
Sverrir Auðunsson ásamt efnilegum kylfingi GS.

„Það hefur verið mjög skemmtilegt að taka þátt í uppgangi klúbbsins. Félögum hefur fjölgað talsvert síðustu ár og við höfum lagt mikla vinnu í að bæta völlinn – bæði með snyrtingu og
endurbótum. Á síðasta Íslandsmóti var tekin ákvörðun um að gera ákveðnar breytingar á brautaröð og leikupplifun, og þær breytingar fengu mjög jákvæð viðbrögð. Þær voru því ræddar á fjölmennum aðalfundi og síðar settar fram sem spurning í viðhorfskönnun meðal félagsmanna GS.“


Sverrir bætir við að hann, ásamt vallarnefnd og stjórn, hafi fullan skilning á þeim sem hefðu
viljað halda í fyrra fyrirkomulag.

Örninn 2025
Örninn 2025

„En breytingin var gerð með heildarupplifun kylfinga og rekstri golfklúbbsins í huga. Þannig hefur erfiður byrjunarkafli verið gerður að mun þægilegri upphitunarholum. Perla vallarins, Bergvíkin – sem oft er kölluð drottning par 3 hola á Íslandi – er nú hola númer 12 og hluti af okkar svokallaða halelúja horni, holum 10–14, sem eru með þeim erfiðari fimm holu köflum sem þekkjast á landinu. Lokaspretturinn er hins vegar óbreyttur og endar á skemmtilega sjónrænni lokaholu. Við höfum líka fengið glæsilega viðbót við upplifun kylfinga – Hlynur kokkur er kominn í Leiruna með Nítjánda – Bistro & Grill, sem er opið fyrir og eftir hring. Nú, eftir breytinguna, er einnig hægt að stoppa þar eftir níu holur til að grípa með á seinni níu. Það skiptir miklu máli að geta notið góðs matar og afslöppunar í tengslum við góða golfferð.“

Völlurinn kemur vel undan vetri – og vonin lifir um gott sumar


„Völlurinn okkar kemur mjög vel undan vetri – eins og margir aðrir vellir landsins – og það þarf ekki sérfræðing til að sjá ástæðuna. Vonin er auðvitað sú að veðrið verði golfhreyfingunni hliðhollt í sumar.“


Golfklúbbur Suðurnesja opnaði sumarflatir í síðustu viku og aðsókn hefur verið góð – yfir 210 kylfingar voru t.d. skráðir í gær, á föstudaginn langa.

„Á næsta ári verðum við með Íslandsmótið í holukeppni og notum sumarið í ár til að fínstilla
völlinn eftir tvö ár af miklum breytingum. Meðal árlegra móta er meistaramótið okkar um miðjan ágúst – þar sem var metþátttaka í fyrra – og hin sívinsæla Hjóna- og parakeppni Diamond Suites. Þá verða stigamót á sínum stað á þriðjudögum og öflugt kvennagolf á miðvikudögum.“

Í lok ágúst mun GS svo halda Íslandsmót golfklúbba – 1. deild karla 50+ og 2. deild kvenna
50+.

„Við ætlum að halda bæði mótin saman í shotgun formi, sem hentar Leirunni afar vel
þar sem stutt er í allar brautir,“ segir Sverrir.

Hvetur höfuðborgarbúa til að sækja Suðurnesin heim


„Golfið hefur vaxið gífurlega á Íslandi undanfarin ár og vellirnir á höfuðborgarsvæðinu eru fyrir löngu sprungnir. Ég öfunda ekki kylfinga þar – margir eru á biðlista eftir að komast í klúbb og vellirnir eru umsetnir frá morgni til kvölds. Það tekur aðeins um hálftíma að keyra til okkar á Hólmsvöll í Leiru, þar sem bíður frábær völlur, góður matur hjá Nítjánda – Bistro & Grill, og stutt í fleiri gæðavelli á Suðurnesjum. Sérstaklega virka daga er auðvelt að komast á teig þegar manni hentar.
Ég held að við eigum eftir að sjá enn frekari aukningu í golfi í sumar. Masters-mótið nýafstaðna vakti mikla athygli og margir sem ekki hafa áður sýnt íþróttinni áhuga urðu forvitnir. Ég hvet alla til að hafa samband við sinn heimaklúbb og kynna sér hvernig best sé að hefja golfferilinn. Nýliðakennsla er í miklum blóma og það er mikilvægt að fá leiðsögn strax í upphafi. Íþróttastjóri GS, Sigurpáll Geir Sveinsson – þrefaldur Íslandsmeistari – er alltaf reiðubúinn að leiðbeina nýjum meðlimum, bæði hvað varðar sveiflu, grip og búnað.
Við bjóðum líka upp á sanngjarna aukaaðild fyrir þá sem eru skráðir annars staðar, en vilja hafa fastan fót hér hjá okkur líka – það hefur mælst mjög vel fyrir hjá kylfingum sem vilja koma oftar suður. Við stefnum að því að bæta við okkur 100 nýjum félögum í ár og rjúfa 800 meðlimamúrinn,“ segir Sverrir að lokum.

Sigurpáll Geir Sveinsson, íþróttastjóri GS.