Guðrún Brá í þokkalegri stöðu eftir fyrsta hring í Ástralíu
Lék á 1 höggi yfir pari og er fyrir ofan miðjan hóp
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, lauk fyrir skömmu leik á fyrsta hring á Australian Women’s Classic en leikið er á Bonville golfsvæðinu í South New Wales. Guðrún Brá lék á 1 höggi yfir pari vallarins og er sem stendur í 36.-46. sæti.
Guðrún Brá lék prýðilega á fyrri níu holunum en hún fékk par á fyrstu sex brautirnar áður en hún fékk góðan fugl á 7. braut.
Hún paraði þá bæði 8. og 9. braut og kom í hús eftir fyrri níu holurnar á 1 höggi undir pari.
Fyrri skolli dagsins kom á 11. braut og seinni skollinn á 15. braut. Guðrún fékk par á hinar brautirnar og kom þar með í hús á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari vallarins.
Það er Englendingurinn Meghan MacLaren sem leiðir á 5 höggum undir pari eftir flottan skollalausan fimm fugla hring.
Guðrún Brá leikur annan hringinn strax í kvöld en hún verður ræst út klukkan 21:30 á íslenskum tíma.
Stöð 2 Golf sýnir beint frá öllum fjórum keppnisdögunum á mótinu og hefst útsending klukkan fjögur í nótt.