Fréttir

Gamall refur minnti á sig á Akureyri
Mikill uppgangur er hjá Golfklúbbi Selfoss sem stýrt er af Hlyni Geir Hjartarsyni
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 9. ágúst 2021 kl. 12:10

Gamall refur minnti á sig á Akureyri

Frábæru Íslandsmóti lauk í veðurblíðu á Akureyri í gær.

Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar voru þar krýnd Íslandsmeistarar í fyrsta sinn.

Ein af athyglisverðari sögum mótsins var frammistaða Hlyns Geirs Hjartarsonar úr Golfklúbbi Selfoss. Á seinni níu holunum á lokadegi var hinn 45 ára gamli golfkennari í bullandi baráttu um verðlaunasæti eftir að hafa leikið frábært golf á mótinu.

Það fór þó á endanum svo að Hlynur endaði mótið jafn í 11. sæti eftir að hafa fengið tvöfalda skolla á tvær síðustu brautirnar. Grátlegur endir á frábæru móti hjá Hlyni sem getur sannarlega borið höfuðið hátt.

Það vakti ekki síður athygli hversu margir keppendur komu frá Selfossi þar sem Hlynur Geir er bæði framkvæmdastjóri og golfkennari. Samtals voru sjö keppendur í karlaflokki frá klúbbnum og þrír þeirra enduðu á meðal 20 efstu.

Dóttir Hlyns, Heiðrún Anna Hlynsdóttir endaði svo í þriðja sæti í kvennaflokki.

Gríðarlegur uppgangur er í golfinu hjá Golfklúbbi Selfoss sem á dögunum náði þeim frábæra árangri að enda í 3. sæti á Íslandsmóti Golfklúbba.

Framtíðin er björt hjá klúbbnum sem hefur á síðustu árum staðið í miklum framkvæmdum. 

Reist hefur verið skemma fyrir inniæfingar á svæði klúbbsins auk þess sem nýr golfvöllur hefur verið lagður að hluta og viljayfirlýsing undirrituð við bæjarfélagið um stækkun vallarins í 18 holur.