Einn lengsti golfvöllur landsins í byggingu við Minni-Borg
Afar spennandi verkefni er nú í fullum gangi við Minni-Borg í Grafnings- og Grímsneshreppi. Í haust hófst þar að nýju uppbygging á glæsilegum 18 holu golfvelli sem áætlað er að verði opnaður sumarið 2014. Haraldur Már Stefánsson, fyrrverandi golfvallarstjóri á Kiðjabergsvelli, er verkefnisstjóri og hefur umsjón með byggingu vallarins. Edvin Roald Rögnvaldsson hannar völlinn.
„Það er allt á fullu. Við byrjuðum í haust og ef allt gengur að óskum þá ættum við að geta opnað völlinn sumarið 2014. Við munum klára sáningu í vor. Þetta er frábært landsvæði og hönnun vallarins er til fyrirmyndar. Það var búið að gera mikið áður en ég kom að þessu verkefni og nú er búið að byggja upp allar flatir og teiga,“ segir Haraldur Már sem bætir við að hér sé um alvöru golfvöll að ræða en völlurinn á eftir að verða einn lengsti golfvöllur landsins
„Þessi völlur á eftir að verða mjög spennandi fyrir kylfinga. Hann verður 6500 metra langur af öftustu teigum. Flatirnar verða mjög stórar og það sama má segja um teigana. Völlurinn er ekki á stóru landsvæði. Við notum um 60 hektara landsvæði undir völlinn en flæðið í vellinum á eftir að koma mjög skemmtilega út.“
100 herbergja hótel við völlinn
Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að reisa golfvöll á þessu svæði en málið tók nokkurn kipp eftir að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps eignaðist landsvæðið síðastliðið haust. Fyrrum eignarhald varð gjaldþrota og var talsvert moldarfok af golfsvæðinu á nærliggjandi byggð. Haraldur var þá fenginn af sveitarstjórninni til ráðgjafar um hvernig best væri að ráðstafa landsvæðinu. Ákveðið var að fara á fullt við byggingu golfvallar sem verður svo leigður eða seldur að lokinni uppbyggingu.
„Það ætti ekki að vera mikið vandamál að leigja þennan golfvöll þegar hann er tilbúinn. Nú þegar hefur verið sveitarfélagið lagt fram drög að viljayfirlýsingu fyrir byggingu á 100 herbergja hóteli sem einkaaðili hyggst reisa við hlið vallarins. Það er mjög spennandi og líklega væri þá eins konar klúbbhús inn í þessari hótelbyggingu. Sveitarfélagið ætlar ekki að reka þennan völl í framtíðinni og það verður svo að koma í ljós hver leigir eða kaupir völlinn. Við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Haraldur.
Rauður sandur í glompunum?
Við hönnun vallarins kom upp sú hugmynd um að vera með sigtaða rauðmöl í glompunum. Haraldur hefur verið með tvær tilraunaglompur í vetur til að sjá hvernig það kæmi út.
„Þetta kemur mjög skemmtilega út og sandurinn hreyfir ekki eins mikið og ég átti von á. Það er mjög fínt að slá úr þessum sandi og þetta skemmir ekki golfkylfurnar. Þessi rauði sandur er aðeins þyngri en sá venjulegi þegar hann er blautur en að öðru leyti þá held ég að þetta eigi eftir að virka mjög vel.“
Haraldur starfar einn að uppbyggingu á svæðinu og ræður til sín verktaka þegar farið er í stærri verkefni. Hann segir golfvöllinn tilvalið útivistarsvæði fyrir byggðarkjarann Borg.
„Það er á döfinni að planta trjám á nokkrum reitum á vellinum og gera gönguleiðir við og í kringum völlinn. Einnig sjáum við fyrir okkur að hægt verði að nota völlinn til að gera gönguskíðabrautir að vetri til og þannig er hægt að nota völlinn sem útivistarsvæði allan ársins hring.“