Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Daníel Rúnarsson er kylfingur vikunnar
Föstudagur 25. febrúar 2011 kl. 19:57

Daníel Rúnarsson er kylfingur vikunnar

Daníel Rúnarsson, einn af eigendum Golfkulur.is, er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Hann er 27 ára gamall og býr á Álftanesi. Daníel stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands ásamt því að vera vöru- og markaðsstjóri hjá Svar tækni. Hann er að auki ljósmyndari hjá Fréttablaðinu í hjáverkum. Kylfingur.is fékk Daníel til að svara nokkrum laufléttum spurningum.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Ég byrjaði í golfi þegar ég var líklega 10-11 ára og var við æfingar hjá Magga Birgis í GKG tvö sumur. Fór síðan í sveit næstu tvö sumur á eftir og datt í framhaldinu alveg út úr golfinu. Spilaði einn og einn hring á hverju sumri með foreldrunum en ekkert af viti fyrr en núna fyrir 3-4 árum síðan að ég fékk golf-veikina aftur og hef ekki gert mikið annað en að hugsa um eða spila golf síðan þá.

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Var aðeins í fótbolta til að byrja með en æfði körfubolta til sirka 15 ára aldurs, aðallega með stórliði Stjörnunnar. Varð bikarmeistari í yngri flokkum, sem var þó meira liðsfélögunum að þakka en mér. En ég var samt rosa skemmtilegur í hóp!

Helstu afrek í golfinu?
Hef því miður ekki náð að fara holu í höggi eða sigra á stórmótum, ennþá, þannig að helstu afrek hingað til eru að ná markmiðum síðastliðinna sumra – þó svo að sumarið 2010 hafi ekki verið nægjanlega gott!

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Hef ekki afrekað neitt sérstaklega neyðarlegt ennþá (fyrir utan einstaka brotnar kylfur þegar ég var mun yngri og skapið átti það til að taka völdin). En í hvert skipti sem ég spila hinn frábæra golfvöll á Geysi þá er ég niðurlægður af þeim einstaka velli. Hef aldrei komið vel út úr hring þar, golflega séð, en hinsvegar alltaf brosandi, enda mjög skemmtilegur völlur.

Ferðu í golfferð erlendis á næstunni og ef þá hvert?
Hef farið í golfferðir til Svíþjóðar síðustu tvö ár en í vor er stefnan tekin á Spán með Grillklúbbnum SuðuSigfús. Mæli hinsvegar eindregið með því að Íslendingar kíki til Stokkhólms í golfferð – stutt að fara, flott veður og ótrúlega góðir golfvellir.

Hvernig gengur reksturinn hjá Golfkúlur.is?
Það gengur mjög vel hjá Golfkúlur.is, mikill vöxtur ár frá ári og svo eru margir golfklúbbar sem versla hjá okkur í heildsölu. Okkur sýnist að það hafi svo sannarlega vantað þennan valkost á íslenskan golfmarkað því okkur hefur verið tekið opnum örmum og samkvæmt könnun sem við gerðum síðasta vetur þá voru allir viðskiptavinir ánægðir með okkur – 100% árangur! Erum mjög stoltir af því. Í vor má búast við nýjungum frá okkur þannig að ég hvet fólk til að fylgjast vel með.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Minn helsti styrkleiki er líklega mikið keppnisskap, mér finnst afar leiðinlegt að tapa. Ég er sterkari í stutta spilinu heldur en því langa, upphafshöggin eiga það til að leita full mikið til hægri. Svo er það líklega styrkleiki að mér finnst mjög gaman að æfa golf og pæla í golfsveiflunni, það hjálpar örugglega. Svo er það sama vandamál hjá mér og örugglega flest öllum áhugagolfurum að það vantar allan stöðugleika. Gott golf í dag þýðir ekki endilega gott golf á morgun

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir og af hverju?
Ég hef alltaf verið hrifinn af Björgvini Sigurbergs. Hann er mjög skemmtilegur keppnismaður, leggur allt undir og er ekki hræddur við að sækja þegar aðrir leggjast í vörn. Erlendis hef ég alltaf verið Tiger Woods maður, þó svo að það þyki ekki töff í dag! En svo hef ég líka mjög gaman af meistara Jimenez. Tveir mjög ólíkir golfarar svo vægt sé til orða tekið.

Atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
Golfi, engin spurning. Miklu þægilegri vinna!

Hvert er eftirlætisliðið í enska boltanum og hvers vegna?
Liverpool, og ég held ég þurfi ekkert að útskýra af hverju ég haldi með sigursælasta liði Englands fyrr og síðar.

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?
Ekki ennþá, því miður. Par-3 holurnar hafa ekki verið vinir mínir undanfarin ár, en það stendur til bóta sumarið 2011!

Hver er frægasta persónan sem þú er með í símanum?
Þar sem ég er ljósmyndari í hjáverkum þá hef ég þurft að setja nokkra fræga í símaskránna, en ég þekki þá auðvitað nákvæmlega ekkert. Þoli ekki að gera honum hátt undir höfði en líklega er Henry Birgir Gunnarsson sá þekktasti. Hann er samt aldrei frægur, enda fékk hann ekki boðskort í VIP partíið fræga.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Spila oftast með sama hópnum og ekki eru þeir frægir. Skáfrændi minn og stórkylfingur, Sissó úr Keili, er því líklega sá frægasti – enda frábær golfari á uppleið! Svo hef ég spilað með nokkrum frægum í árlegu fjölmiðlamóti, Media Masters, en þessir fjölmiðlamenn eru svo uppfullir af sjálfum sér að ég ætla ekkert að vera að upphefja þá meira hér!

Hvað keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?
Það er mjög gaman að spila allskonar útfærslur af golfi í góðra vina hópi, t.d texas scramble. En þegar kemur að „alvöru“ golfi þá er höggleikur með forgjöf eina vitið. Er ekkert alltof hrifinn af þessu punktaveseni.

Ertu hjátrúarfullur hvað varðar golf?
Nei, algjörlega laus við það sem betur fer.

Hver er besti kylfingur landsins og hver er efnilegastur að þínu mati?
Birgir Leifur er besti kylfingur landsins og á því er enginn vafi. Það var frábært að fylgjast með honum í Kiðjabergi. Hafði einhverja stjórn og tempó yfir sveiflunni sem maður sá ekki hjá öðrum. Það er erfiðara að velja þann efnilegasta, ótrúlega mikið af efnilegum unglingum á þessu landi eins og t.d. Guðmundur Ágúst, Rúnar Arnórs og Guðrún Brá.

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Það er auðvitað skemmtilegast að spila golf á flottum golfvelli í góðu veðri með skemmtilegum félögum. Það eina leiðinlega við golfið er hversu stutt tímabilið er hérna heima, en maður reynir að lengja það með golfferðum og æfingum í Hraunkoti!

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einmitt frá vellinum á Geysi. Var þar fyrir tveimur árum ásamt stjörnublaðamanninum Henry Birgi Gunnarssyni og hinum spænsk ættaða Albert latínó. Það var afar heitt þennan dag og sá spænski að sjálfsögðu kominn úr að ofan, sem er hans einkennisbúningur. En það dugði ekki til og því ákvað latínó fuglinn að kæla sig niður með ísköldu lindarvatni úr ánni sem rennur í gegnum völlinn. Það gekk þó ekki betur en svo að hann flaug allur út í ánna. Einhver myndi halda að áfengisdrykkja hefði orsakað fallið, en Albert er hinsvegar bindindismaður þannig að það gengur ekki upp. Það var samt ekki hægt að sjá að honum leiddist þetta neitt sérstaklega.

Staðreyndir:
Nafn: Daníel Rúnarsson
Klúbbur: Keilir
Forgjöf: 11,8
Golfpokinn: Er að skipta yfir í Maltby KE4 Tour járn, beint frá Keisaranum í Hraunkoti. Er svo með TaylorMade Burner 2.0 driver og McGregor Mactech hybrid.
Golfskór: Ecco Street
Golfhanski: Nike
Fyrirmynd: Tiger Woods í keppnisgolfi, Jimenez í gleðigolfi!
Masters eða Opna breska? Opna Breska
St. Andrews eða Pebble Beach? Pebble Beach
Uppáhalds matur: Nautasteik með piparostasósu klikkar seint.
Uppáhalds drykkur: Það sem hendi er næst, ekkert uppáhald.
Uppáhalds golfhola: Erfitt að velja á Íslandi, en mér finnst 11. á Hvaleyrinni alltaf skemmtileg. Erlendis er það 18. holan á Bro Hof í Stokkhólmi.
Ég hlusta á: Flest alla tónlist
Besti völlurinn: Bro Hof Slott GC, Stokkhólmi
Besta skor (hvar): 80 á flest öllum golfvöllum heimsins – mér tekst ekki að komast undir 80.
Besta vefsíðan: www.Visir.is
Besta blaðið: Fréttablaðið
Besta bókin: Engin ein sem kemur upp í hugann
Besta bíómyndin: Turbulence 3
Besti kylfingurinn: Tiger Woods