Fréttir

Dagbjartur ætlaði að fagna með ís eftir sigurinn
Frá vinstri: Sigurður Arnar Garðarsson (GKG); Dagbjartur Sigurbrandsson (GR), Ragnar Már Ríkharðsson (GM) og Kristín Guðmundsdóttir úr stjórn GSÍ sem afhenti verðlaunin.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 27. maí 2019 kl. 21:20

Dagbjartur ætlaði að fagna með ís eftir sigurinn

Hinn ungi og efnilegi Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, stóð uppi sem sigurvegari á Egils Gull mótinu sem fór fram um helgina á Mótaröð þeirra bestu. Leikið var á Þorlákshafnarvelli við fínar aðstæður.

Dagbjartur lék hringina þrjá á 8 höggum undir pari og varð að lokum höggi á undan þeim Sigurði Arnari Garðarssyni og Ragnari Má Ríkarðssyni.

Dagbjartur var að vonum sáttur með sigurinn eftir að hafa verið tvívegis nálægt sigri á undanförnum árum.

„Mjög vel, gott að ná þessum fyrsta sigri. Ég var að slá vel, koma mér í góð færi og svo var pútterinn svolítið slakur í byrjun en ég náði honum eftir annan hringinn,“ sagði Dagbjartur við Sigurð Elvar hjá Golfsambandi Íslands eftir mót.

Aðspurður hvernig Dagbjartur ætlaði að fagna sigrinum var svarið einfalt: „Bara ís um kvöldið,“ og bætti við að uppáhalds bragðarefurinn hans væri með oreo, þrist og lakkrís.

Viðtalið í heild sinni má sjá með því að smella hér.