Bjarki hafnaði í 54. sæti í Frakklandi
Bjarki Pétursson úr GKG hafnaði í 54. sæti á Le Vaudreuil Golf Challenge í Frakklandi en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Bjarki komst einn okkar manna í gegnum niðurskurðinn á mótinu en auk hans léku Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR á mótinu.
Haraldur Franklín Magnús úr GR, sem leikið hefur á flestum mótum á mótaröðinni í ár, var í fríi heima á Íslandi en hann og unnusta hans, Kristjana Arnarsdóttir, eignuðust sitt fyrsta barn fyrir skömmu.
Það var Englendingurinn, Nathan Kimsey, sem stóð uppi sem sigurvegari á mótinu en hann hafði betur gegn hinum franska, Robin Sciot-Siegrist á 4. holu í bráðabana. Þeir léku hringina fjóra á samtals 14 höggum undir pari.
Bjarki lék hringina fjóra á 289 höggum (73-70-72-74) eða á samtals 1 höggi yfir pari Golf PGA France du Vaudreuil vallarins. Hann fékk einn tvöfaldan skolla, þrettán skolla, 12 fugla og einn örn á mótinu.
Bjarki sagði í stuttu spjalli við kylfing.is eftir mótið að það hafi fyrst og fremst verið ánægjulegt að leika fjóra hringi.
„Vonandi held ég áfram að ná niðurskurði á þeim mótum sem ég fæ og vonandi fer ég að skila betri hringjum inn yfir helgina. Það er mjög þýðingarmikið fyrir mig, þar sem ég er með eins konar inn og út kort á mótaröðina og veit þess vegna ekki alveg alltaf hvort ég komi til með að spila eða ekki. Ég veit að ég fæ mótið í Austurríki í vikunni og ef ég gæti fengið fjóra hringi þar og skilað inn góðu skori þá getur það gert ansi mikið fyrir mig. Ég þarf að hætta að gera klaufamistök á borð við þrípútt og annað og ná að skila inn hreinu og flottu alvöru skori, þá dettur þetta inn.“
Bjarki verður meðal þátttakenda á Euram Bank Open, sem fram fer dagana 14.-17. júlí í Austurríki, eins og bæði Andri Þór og Haraldur Franklín. Guðmundur Ágúst mun sitja hjá.
Að venju verður fylgst vel með hér á kylfingi.is.