Fréttir

Detry fyrsti Belginn til að vinna á PGA mótaröðinni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 9. febrúar 2025 kl. 23:52

Detry fyrsti Belginn til að vinna á PGA mótaröðinni

Thomas Detry er fyrsti kylfingurinn frá Belgíu til að sigra á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum en hann vann WM Phoenix mótið með sjö höggum.

Belginn var með fimm högga forskot fyrir lokahringinn en hann lék frábært golf á honum og gulltryggði sigurinn með því að setja boltann hér um bil í holu á hinni mögnðu 16. holu en þar leika menn golf eins og þeir séu á fótboltavelli umkringdir tugum þúsunda áhorfenda.

Stemmningin á þessu mest sótta móti á PGA mótaröðinni er mögnuð. Belginn hefur í nokkur ár verið að berja á sigur-dyrnar í stærri golfmótum atvinnumanna án þess að ná því þangað til nú - en hann gerðist atvinnumaður árið 2016.

Hann lék völlinn á 24 höggum undir pari og gerði sér lítið fyrir og fékk fugl á fjórar síðustu holurnar í lokahringnum sem hann endaði á -7 sem er jöfnun á besta skori sigurvegara í lokahring. Glæsilegt golf hjá honum og fleytir honum hugsanlega langt inn í Ryderliði Evrópu. Detry gerðist atvinnumaður árið 2016 og með sigrinum tryggði hann sér þátttökurétt í öllum stærstu mótum ársins næstu þrjú árin.

Lokastaðan.

Hér má sjá glæsilegt innáhögg Detry á 16. holu.