Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Betri og ódýrari golfhermum fjölgar í heimahúsum
Birgir Vestmar Björnsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 14. desember 2020 kl. 15:00

Betri og ódýrari golfhermum fjölgar í heimahúsum

Golfhermar hafa undanfarin ár verið að ryðja sér til rúms í golfheiminum og eru flestir af stóru klúbbum landsins komnir með einn eða fleiri herma þar sem margskonar höggnemar (e. launch monitor) eru notaðir. Það eru ekki nema nokkur ár síðan að kylfingar könnuðust eingöngu við TrackMan og FlightScope höggnemana en undanfarið hefur úrvalið aukist til muna. Þar af leiðandi eru möguleikarnir orðnir mun fleiri, ekki aðeins fyrir Golfklúbba, heldur líka fyrirtæki og einstaklinga þar sem verðið er orðið viðráðanlegra en það var hér áður fyrr.

Blaðamaður Kylfings settist niður með Birgi Vestmari Björnssyni, eiganda vefsíðunnar Golfhermar.is, á dögunum og ræddi um allt milli himins og jarðar hvað varðar höggnema.

Örninn 2025
Örninn 2025

Það varð fljótt ljóst fyrir blaðamanni að reynsla Birgis er mikil og hefur ástríðan komið honum langt þegar hann var beðinn um að segja aðeins frá sjálfum sér og sinni reynslu.

„Ég hef nú alltaf verið hálfgerður græjufíkill og tækninörd við beinið og það er ekkert öðruvísi þegar kemur að golfinu. Þegar ég byrjaði að „fitta“ árið 2007 þá keypti ég mér minn fyrsta höggnema, sem hét Vector, og notaðist við háhraða myndavél til að lesa flug boltans. Seinna fékk ég mér FlightScope X2 sem var mikið nákvæmari og notaðist við radar til að greina flug boltans en líka hreyfingu kylfuhaussins. Þessa græju var líka hægt að nota sem golfhermi, þ.e til að spila golfvelli með öðrum hugbúnaði. Golfklúbburinn Keilir nýtti sér þetta og þannig gátum við samnýtt högnemann. Ég aðstoðaði svo Keili við kaup á mottum og tjöldum og öðrum FlightScope. Ásamt því að aðstoða Keili við sín kaup þá sótti ég öll námskeið og fróðleik sem voru í boði í þessum fræðum og eitthvað hefur þetta spurst út því fljótlega var ég farinn að ráðleggja mörgum og aðstoða við að fá hitt og þetta. Þetta þróast svo þannig að maður kveikir á perunni að gera þetta nú ekki allt af góðmennskunni einni saman, heldur væri ekki verra að fá eitthvað fyrir, þó þetta sé nú ótrúlega gaman“, segir Birgir og hlær.

„PGA Golfkennaraskóli Íslands fékk mig líka til að kenna sínum nemendum þessi höggnemafræði.
Undanfarin þrjú ár hef ég síðan notað GCQuad frá Foresight Sports í mínar mælingar. Ég hef svo reynt að fara árlega á PGA sýninguna í Florida til að fylgjast með þróun í þessum málum. Ég hef tekið fleiri námskeið í þessum fræðum og öðru tengdu en ég þori að segja frá. Ætli að diplómurnar séu ekki að nálgast 20-30.  Það er ör þróun í þessu og því mikilvægt að fylgjast vel með. Ég reyni líka að gera prófanir á öllu sem er í boði og átta mig betur á kostum og göllum allra tækja og treysta ekki blint á loforð framleiðenda.“


GCQuad höggnemi stakur - Verð 2.750.000 kr. Þetta er höggneminn sem Birgir hefur helst notað við sínar mælingar.

En nú virðist þetta vera svo mikill pakki, hverjir eru þínir helstu kúnnar? Er þetta ekki aðallega golfklúbbarnir?

„Til að byrja með voru þetta helst bara golfklúbbar, enda voru þetta frekar dýr tæki þá. Þróunin hefur verið mikil og nú er hægt að fá ótrúlega flott tæki fyrir ekki svo mikinn pening. Flott aðstaða í bílskúrinn þarf ekki að vera svo dýr og í dag er langstærsti kúnnahópurinn einstaklingar, starfsmannafélög, fyrirtæki og þess háttar.“

Blaðamaður verður að viðurkenna að heyra það að einstaklingar og fyrirtæki séu stærsti kúnnahópurinn hafi komið sér á óvart. Þá liggur nú kannski beinast við að spyrja að því hver er ávinningur fyrir fólk að hafa aðgang að svona tæki?

„Golfhermir er í grunninn tæki, höggnemi eða „launch monitor“, sem les flugtaksupplýsingar um golfboltann og reiknar út frá því hvert hann hefði flogið ef höggið hefði verið slegið utandyra . Þessi búnaður talar svo við, eða er tengdur við, hugbúnað sem er með golfvöllum og þannig er hægt að spila golf innandyra. Það sem þarf til er því höggnema, mottu til að slá af og svo er misjafnt hvort kaupendur velji það að nota tjald og skjávarpa, eða einfaldlega spjaldtölvu og net til að slá í.
Bestu nemarnir eru það nákvæmir að þeir endurspegla mjög nákvæmt hvernig boltaflugið hefði verið utandyra í þeim aðstæðum sem er valið, því hiti, vindur og þess háttar hafa gríðarleg áhrif á niðurstöðu höggsins. Það er hægt að æfa lengdarstjórnum, stjórnun á boltaflugi og allt sem er hægt á æfingarsvæðum. Það má segja að með því að nota eigin bolta í stað þess að nota bolta sem eru á æfingasvæðum og að stjórna ytri áhrifum ertu að fá jafnvel betri æfingu í hermi heldur en úti í skýli. Ég vil samt ekki draga úr mikilvægi þess að sjá boltann fljúga utandyra og að anda að sér fersku lofti. Ég veit fyrir víst að flest allir sem hafa keypt sér herma hafa lækkað forgjöfina, enda eru þeir þá að allt árið.
Þessir höggnemar lesa svo líka margir hverjir hreyfinguna á golfkylfuhausnum og þær upplýsingar má nýta í kennslu og æfingar og þessi tæki eru nú orðin staðalbúnaður hjá mörgum ef ekki flestum kennurum í dag. Af hverju að giska á það sem er hægt að mæla?“


„Af hverju að giska á það sem er hægt að mæla?“ Phil Mickeslon, Dustin Johnson og Rory McIlroy nýta sér hérna GCQuad höggnemann til að afla sér nákvæmra upplýsingar.

Eins og þú segir eru svona græjur orðnar staðalbúnaður í kennslu og hjá klúbbum landsins en hverjir eru aftur á móti  möguleikarnir fyrir fólk sem vill koma sér upp aðstöðu heima hjá sér? Er það einfaldlega hægt? Ef svo er þá hversu mikið pláss tekur svona „heimahermir“?

„Áður fyrr var erfiðara að koma upp hermi í heimahúsi því búnaðurinn var nokkuð dýr og gjarnan þurfti lengra boltaflug fyrir tækin að lesa til að vera nákvæm. Það er ör þróun í þessu og í dag eru verðin miklu viðráðanlegri. Lofthæðin er oftast það sem getur verið takmarkandi þáttur, en helst þarf hún að vera um 3m. Fyrir kylfinga sem eru með flata sveiflu og ef þeir eru lágvaxnir getur þetta verið lægra. Hæðin þarf bara að vera það mikil að driverhaus rekist ekki í loftið í golfsveiflunni. Lágmarksbreidd er talað um 3m, en 4m er algeng og þægilegri breidd. 5,5m dýpt dugar. Þetta sleppur því í marga bílskúra ef lofthæðin er góð.“

„Kostnaður er mjög misjafn eftir hversu veglegur hermirinn á að vera. Höggnemi sem veitir nokkuð nákvæmt boltaflug en les ekki kylfuhaus getur kostað 359.000 kr. og þá þarf bara mottu, net og spjaldtölvu. Hermir sem les kylfuhaus og með öllu tilheyrandi getur kostað til dæmis 3-4 milljónir eða meira. Fyrir meiri kostnað má fá stærra tjald, bjartari skjávarpa, öflugri tölvu, nákvæmari og ítarlegri upplýsingar um kylfuhausinn, auka myndavélar til að greina golfsveifluna og þannig mætti lengi telja upp.“


SkyTrak höggnemi stakur - Verð frá 359.000 kr.

Eins og þú sagðir áður eru fyrirtæki orðin stór partur af þínum viðskiptavinum. Ertu að sjá fyrirtæki taka stærri pakka en fólk sem er að setja upp í bílskúrnum og hver er þá helsti munurinn?

„Oftast kaupa einstaklingar í heimahús herma sem eru ódýrari. Það sem vantar helst í þessa ódýrari herma er að þeir lesa ekki kylfhausinn, heldur bara flug golfboltans. Semsagt það er ekki hægt að sjá upplýsingar eins og kylfuhraða, feril, áfallshorn og þess háttar. Allra dýrustu hermarnir mæla ítarlegar upplýsingar og gera það mjög nákvæmt. Það eru líka til hermar sem lesa kylfupplýsingarnar fyrir ekki svo mikinn kostnað, en þá ekki alveg jafn ítarlega og nákvæmt og það sem dýrast er. Svo er þetta líka spurning hversu stórt tjaldið á að vera og hversu öflugur skjávarpi.“

Nú hefur þú sagt að þróunin hafi verið ör síðustu ár og það eru miklar framfarir í gangi. Ertu með einhverja ákveðna höggnema sem þú ert að flytja inn og mælir með og getur fólk séð þetta uppsett og prófað?

„Ég hef nú selt eða aðstoðað við kaup á næstum öllum golfhermum sem eru í boði. Það eru kostir og gallar við allan búnað og það fer algjörlega eftir hverjum og einum hverju ég mæli með. Ég nota sjálfur GCQuad frá Foresight Sports því hann hentar mér langbest og ég hef líka selt hann í heimahús ásamt GCHawk. SkyTrak hefur verið vinsæll. Síðan eru QED og Eye XO nýir nemar á markaðnum sem eru ótrúlega flottar og hafa verið vinsælar. Ásamt þessu hefur verið mjög vinsælt að kaupa box með öllu tilheyrandi, þ.e. mottu, tjaldi, tölvu og vernd utan um og þetta er ekki flóknara að setja upp en IKEA skáp.“


Vinstri: QED höggnemi stakur - Verð frá 1.440.000 kr.
Hægri: QED nemi kominn upp með öllu tilheyrandi - Verð frá 3.300.000 kr.

„Ef fólk vill fá að sjá og prófa þá getur það t.d. komið til mín eða í Keili til að prófa vörurnar frá Foresight Sports, það er GCHawk og GCQuad. Það er erfitt að ætla vera með sýnisbás af öllum hermum. Þess vegna reyni ég frekar að fara með verðandi kúnna til fyrrum kúnna sem eru með réttu græjuna. Mér þykir í raun betra að fólk heyri frá sáttum kúnnum heldur en að fá söluræðu frá mér,“ segir Birgir að lokum og hlær.

Það kom blaðamanni á óvart hversu auðvelt það er orðið fyrir fólk að koma upp svona hermi heima hjá sér og greinilegt að vinsældir þeirra eru stöðugt að aukast.

Allar nánari upplýsingar um þjónustu Birgis má nálgast á heimasíðu hans, Golfhermar.is.


Birgir hefur notið vinsælda sem kylfusmiður undanfarin ár, en fæstir vita að hann hefur lagt mikinn metnað í að kynna sér tækni fjölda högganema. Birgir hefur prófað og borið saman ólíkar tegundir höggnema og annars búnaðar sem notaður er í golfhermum. Hér nýtur hann aðstoðar Vikars Jónassonar á mottunni.