Andri Þór Björnsson sigraði á Símamótinu
Andri Þór Björnsson, kylfingur úr GR, sigraði á Símamótinu á Eimskipsmótaröðinni sem lauk í dag á Hlíðavelli. Andri lék hringina þrjá á 12 höggum undir pari og sigraði með tveggja högga mun. Annar var Magnús Lárusson (GJÓ) en hann lék á 10 höggum undir pari.
Andri lék ótrúlega stöðugt golf alla þrjá hringina en allt í allt fékk hann einungis þrjá skolla. GR-ingurinn sigldi þessu örugglega heim í dag en sigurinn var í raun aldrei í hættu. Magnús Lárusson veitti Andra harða keppni og með frábærum fugli á síðustu holu endaði hann tveimur höggum á eftir Andra.
Þetta er annar sigur Andra í röð á Eimskipsmótaröðinni en hann sigraði einnig á Strandarvelli fyrr í sumar.
Skor keppenda í karlaflokki var frábært en 12 kylfingar léku á pari vallar eða betur á þremur keppnishringjum. Hlíðavöllur skartaði sínu fegursta um helgina og voru keppendur afar ánægðir með aðstæður og umgjörð mótsins.
Efstu fimm í mótinu:
1. Andri Þór Björnsson, GR (64-70-70) 204 (-12)
2. Magnús Lárusson, GJÓ (66-70-70) 206 (-10)
3. Þórður Rafn Gissurarson, GR (71-69-69) 209 (-7)
4. Ragnar Már Garðarsson, GKG (73-66-72) 211 (-5)
5. Theodór Emil Karlsson, GM (70-68-75) 213 (-3)
Magnús Lárusson lék frábært golf um helgina
Fjölmargir áhorfendur fylgdust með í dag. Hér slær Þórður Rafn inn á lokaholuna.
Bergsteinn Hjörleifsson stjórnarmaður GSÍ, Þórður Rafn Gissurarson GR, Andri Þór Björnsson GR, Magnús Lárusson GM, Guðjón Karl Þórisson formaður GM