Andreas Hartø skráir nafn sitt í metabækurnar
Aðeins mánuði eftir að hafa gerst atvinnumaður hefur Dananum Andreas Hartø tekist að rita nafn sitt í sögubækurnar. Hann varð með sigri sínum á Roma Golf Open fljótastur allra kylfinga til að sigra tvö mót á Evrópsku áskorendamótaröðinni.
Hann tryggði sér sigurinn í gær á afar dramatískan hátt. Eftir að hann og Svíinn Joel Sjohölm höfðu báðir leikið á 19 höggum undir pari í mótinu varð að grípa til umspils. Þar setti Hartø niður 10 metra pútt á fyrstu holu umspilsins fyrir fugli og sló Svíanum við. Kaupmannahafnarbúinn sem er 22 ára var í sjöunda himni með árangurinn eins og gefur að skilja. „Orð fá ekki líst því hvernig mér líður í augnablikinu. Þetta hefur verið brjáluð vika og ég hef sennilega leikið besta golf lífs míns. Aðeins eitt upphafshögg fór úrskeiðis í dag á 18. braut þar sem að lauf sem féll af tré truflaði mig. Ég hélt hins vegar ró minni og hefði varla getað leikið betur í bráðabananum,“ sagði Daninn efnilegi.
Líf hans hefur svo sannarlega umturnast á undanförnum tveimur mánuðum. „Ekki einu sinni í mínum villtust draumum gat ég ímyndað mér að vinna tvö mót með svona stuttu millibili. Þetta er bara fáránlegt. Þessi reynsla á eftir að gera mig að betri kylfing og efla sjálfstraust mitt til muna,“ sagði Andreas Hartø sem að er aldeilis að láta vita af sér í golfheiminu um þessar mundir.
Hér má svo sjá lokastöðu á mótinu
Mynd/golfsupport.nl: Andreas Hartø er sannarlega kylfingur sem vert verður að fylgjast með í framtíðinni.