Fréttir

Abraham Ancer þaggar niður slúðrið
Abraham Ancer
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 17. desember 2019 kl. 16:30

Abraham Ancer þaggar niður slúðrið

Abraham Ancer lét ljós sitt skína í Forsetabikarnum um síðustu helgi og var einn besti kylfingurinn í alþjóðaliðinu. Eftir að hafa tapað á móti Tiger Woods í úrslitaleiknum hefur hann hins vegar fengið að heyra það á samfélagsmiðlum og margir sem vilja meina að Ancer hafi fengið þá útreið sem hann átti skilið.

Forsaga málsins er sú að eftir Mayakoba Classic mótið í nóvember var Ancer spurður að því hverjum hann vildi helst mæta í Forsetabikarnum. Svarið hjá Ancer var auðvelt:

„Ég myndi vilja spila á móti Tiger Woods."

Ósk Ancer rættist og endaði Tiger á að vinna hann 3&2 og töldu margir Ancer hafa verið heldur hrokafullan. Eftir sigurinn bætti Tiger olíu á eldinn þegar hann sagði: „Abe fékk það sem hann vildi". Ancer vildi samt fullvissa alla um að svar hans hafi verið sagt í von um að spila við þann besta, ekki í hroka.

„Þegar þeir spurðu mig um þetta, í fyrsta lagi var spurningin á spænsku, svo tónninn minn var aldrei hrokafullur eða ögrandi eða nokkuð því líkt. Á því augnabliki hugsaði ég mér að það væri frábær reynsla, sem það var. Óháð útkomunni þá lærði ég mikið. Ég varð betri leikmaður bara við að vera í þessum aðstæðum."