Viðtal

Nýr vefur á 50 ára afmæli Golfklúbbs Borgarness
Hamarsvöllur er vinsæll meðal kylfinga. Eina golf-rísort landsins
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 19. júní 2023 kl. 16:03

Nýr vefur á 50 ára afmæli Golfklúbbs Borgarness

Hamarsvöllur er vinsæll meðal kylfinga. Eina golf-rísort landsins

Golfklúbbur Borgarness var stofnaður árið 1973 og fagnar því 50 ára afmæli á þessu ári. Hamarsvöllur varð átján holu golfvöllur árið 2007 og hefur „þroskast“ mikið á undanförnum árum. Hann hefur verið keppnisvöllur fyrir bestu kylfinga landsins undanfarin ár síðan en á vellinum eru hvítir teigar. Hins vegar er litakerfið á teigum orðið úrelt og voru Borgnesingarnir með þeim fyrstu að merkja teigana miðað við lengd golfvallarins af viðkomandi teig. Golfklúbbur Borgarness mun halda Íslandsmótið í holukeppni á afmælisárinu og verður nóg um að vera í sumar.

Jóhannes Ármannsson er Akurnesingur í grunninn en hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra GB síðan árið 2007 en hann er líka vallarstjóri. Hann fór yfir stöðu klúbbsins og vallarins og hvað sé framundan í sumar. 

„Klúbburinn okkar var stofnaður árið 1973 og fagnar því 50 ára afmæli á þessu ári. Við ákváðum að taka heimasíðuna okkar í gegn og munum kynna nýja síðu til leiks á næstu dögum. Við í Borgarfirðinum fengum alveg að finna fyrir kuldabola í vetur og vor svo við gátum ekki opnað inn á sumarflatir fyrr en 12. maí, venjulega opnum við í byrjun maí. Völlurinn er að komast í fínt stand. Einhverjar flatir eru ennþá að jafna sig eftir þennan harða vetur en það er búið að sá í allt og flatirnar munu ná sér. 

Það eru rétt tæplega 300 meðlimir í klúbbnum en það búa um tvö þúsund manns í Borgarnesi. Svo er auðvitað ansi margt fólk sem býr í Borgarfirðinum og við erum með meðlimi þaðan svo þetta eru ekki allt saman Borgnesingar. Svo eru einhverjir með fjaraðild, það er mikil sumarbústaðabyggð hér allt í kring svo ég myndi segja að það iði hér allt yfir sumartímann. Það er mikið forbókað með miklum fyrirvara og um helgar þarf fólk venjulega að bóka sig með einhverra daga fyrirvara, það er oft fullt hér um helgar. Með samningum við stóru klúbbana í Reykjavík og með forbókuðum hópum, erum við örugglega að tala um u.þ.b. þriðja þúsund borgaða golfhringi, þ.e. þeir sem koma og borga flatargjald. Svo erum við auðvitað með golfhótel, eina slíka golf resortið á Íslandi og það er alltaf mikil traffík þaðan svo ég held að það sé alveg hægt að halda því fram að hér sé nóg að gera yfir sumartímann.“

Íslandsmótið í holukeppni á afmælisárinu

Golfklúbbur Borgarness mun halda Íslandsmótið í holukeppni og auk þess móts er mikið um mót, bæði lokuð innanfélagsmót og opin mót. „Við erum með þrenns konar innanfélagsmótaraðir, venjulega stigamótaröð sem við nefndum „Örninn“ golfmótaröð en hún er alltaf mjög vinsæl hjá okkur, að jafnaði spila 70 meðlimir af 300 í hverju móti, það telst ansi gott. Svo erum við með sérstaka herramótaröð og sérstaka kvennamótaröð. Allt eru þetta kylfingar innan GB sem spila á sama tíma og þau fara líka á aðra velli og spila, þetta hefur mælst mjög vel fyrir. Svo erum við með ótal opin mót yfir sumarið, hjóna- og paramót, opin mót eins og Hugo Boss herramótið. Það er nóg af viðburðum yfir allt sumarið,“ segir Jóhannes.

Lítill tími fyrir golfiðkun

Jóhannes hóf sína golfiðkun á Akranesi en hann býr á Hvítárvöllum í Borgarfirði í dag. Hann er nokkru eldri en þeir frábæru kylfingar sem komu upp á Akranesi, eins og Birgir Leifur Hafþórsson. Hann keppti við þá bestu á sínum tíma og komst lægst í 0 í forgjöf, er með 2 í dag. Hann hefur þó lítinn tíma til að spila samhliða störfum sínum fyrir Golfklúbb Borgnesinga. „Ég er í golfhópi sem spilar alltaf á miðvikudögum. Það er eina golfið sem ég spila yfir sumartímann. Ég gat svo sem ekki mikið keppt við þessa stráka á sínum tíma eins og Birgi Leif og Helga Dan, þeir voru komnir með einhverja plúsforgjöf og það er einfaldlega ansi mikill munur á þessum forgjöfum. Ég spila mér til yndisauka og myndi auðvitað vilja geta spilað meira en það er ekki á allt kosið í þessu,“ sagði Jóhannes að lokum en þess má geta að einn besti kylfingur landsins, Bjarki Pétursson, sem nú reynir fyrir sér í atvinnumennsku, er Borgnesingur.

Heimasíða GB.

Hamarsvöllur hefur þroskast mikið á undanförnum árum og er orðinn einn glæsilegasti völlur landsins.

Eina golfrísortið á Íslandi með 18 holu golfvelli og hóteli er að Hamri.

Um miðjan júní komu um tíu manns frá Rótarýklúbbi Borgarness og gróðursettu um 140 fallegar lerki, birki og elri plöntur sem þau gáfu Golfklúbbi Borgarness. Þessar plöntur komu frá Sædísi Guðlaugsdóttir í gróðrarstöðinni Gleym–Mér–Ei á Sólbakka í Borgarnesi. Þau gáfu líka plöntur í fyrrasumar. Hamarsvöllur er einn af fáum „skógar-völlum“ landsins.