Guðrún Brá freistar gæfunnar í S-Afríku - keppir í Sun City
„Þetta snýst alltaf um að ná lengra og ég verð í Suður Afríku við æfingar og keppni næstu átta vikurnar. Markmiðið Guðrúnar er að komast á tvö mót á LET Evrópumótaröðinni sem haldin verða þar í apríl. Til þess þarf ég að ná góðum árangri í mótum á Sunshine mótaröðnni,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur en hún flutti sig suður á heimskringluni fyrir tveimur vikum með golfsettið á bakinu og ferðatösku í hönd.
Herslumuninn vantaði upp á hjá henni að komast aftur inn á LET mótaröðina, þá efstu í Evrópu í úrtökumótinu í desember en þar var hún með keppnisrétt í tvö ár. Síðustu tvö árin hefur hún leikið á LET Access mótaröðinni sem er næsta fyrir neðan í styrkleika.
Guðrún hefur þegar þetta er skrifað í byrjun mars þegar tekið þátt í tveimur mótum á Sunshine mótaröðinni en það þriðja hefst 6. mars. Hún lék mjög vel í fyrra mótinu og endaði í 6. sæti og varð svo í 32. sæti í hinu.
„Ég kom vel heit í fyrsta mótið og lék mjög vel og fannst ég eiga mikið inni eftir það. Ég lék ekki alveg eins vel í því næsta en samt allt í lagi,“ segir Guðrún en aðstæður í S-Afríku eru mjög góðar, frábært veður og mjög góðir golfvellir. Þá er frábær aðstaða til æfinga.“

En hver er ástæðan fyrir því að þú ferð alla þessa leið?
„Þetta er frábær leið til að byrja tímabilið. Byrjun ársins er dauður tími hjá okkur á LET Access og það eru margar stelpur í svipuðum sporum og ég, af þeirri mótaröð og á línunni á LET og reyna að vinna sig upp. Við erum að ná okkur í keppni og ég er að freista þess að vinna mér þátttökurétt á tveimur mótum á LET Evrópumótaröðinni í apríl. Með góðri frammistöðu þar get ég unnið mig upp skalann og fengið þátttökurétt á fleiri mótum sem ég hef ekki í dag.“
Þessi mótaröð hefur styrkst og fyrsta mótið sem Guðrún lék í núna í febúar var t.d. sýnt í sjónvarpi. Guðrún er nú kominn á Sun City golfsvæðið en þar hefur stórt mót í atvinnugolfi karla verið haldið um árabil á Gary Player vellinum. Guðrún segir aðstæður allar hinar bestu og vonast til að ná góðum árangri á þessum heimsþekkta golfvelli. Sjá skorið í mótinu hér.
Nú ertu búinn að vera í atvinnugolfi í all nokkur ár. Þú hlýtur að vera komin með góða reynslu?
„Já, ég finn þvílíkan mun á mér nú og þegar ég var að byrja. Ekki bara golflega séð heldur líka hitt, ferðalögin, rútínan og hvað maður þarf að gera þegar komið er á keppnisstað. Það skiptir miklu máli hvernig manni líður og er ekki óöruggur.“
Hvað með golfið?
„Ég hef verið að vinna með Nökkva Gunnarssyni golfkennara síðustu tvö árin og fann síðasta haust að það var að smella en vantar kannski herslumuninn. Þetta er ekki stórar breytingar á sveiflunni heldur meira að treysta því sem maður hefur verið að vinna í. Reyna að þekkja mistökin. Það er mikilvægt að þekkja sinn leik, láta sér líða vel úti á golfvelli, hafa gaman og þá kemur allt hitt. Það má ekki ofhugsa hlutina. Mér líður vel með sveifluna mína og er að slá vel. Það helsta sem hefur kannski vantað eru þessi millilengdar pútt, frá 4 til 10 metra. Þegar maður setur slík pútt ofan í getur það haft góð áhrif á leikinn hjá manni.“

Svona ferðalag og atvinnumennskan er ævintýri sem getur verið mjög skemmtilegt en stundum líka erfitt. Guðrún er ekki alveg ein á ferð því hún hefur verið á ferðinni með stelpum frá norðurlöndum og deilt hótelherbergi og ýmsum kostnaði með þeim. Hún segir Suður Afríku ekki hættulaust land og því þurfi að fara varlega, ekki síst í Jóhannesarborg sem oft hefur verið sögð ein hættulegasta borg í heimi.
„Við leigðum okkur bíl og komum að degi til svo við þyrftum ekki að keyra um kvöld. Við spurðum konu á hótelinu hvar við gætum stoppað á leiðinni til að fá okkur að borða. Hún sagði bara „ekki stoppa“. En við erum öruggar á golfsvæðinu sem er geggjað. Ég erb úin að sjá hin ýmsu dýr, m.a. antilópur og apa. Þetta er mikil upplifun. Við höfum líka gert meira en að spila golf, m.a. farið á ströndina og við sáum þar mörgæsir sem var magnað. Það er mikilvægt að dreifa huganum og ekki hugsa bara um golf,“ sagði Guðrún sem m.a. heimsótti Kolbein Kristinsson, kylfing sem er búsettur við Pearl Valley golfsvæðið í Cape Town. Hún lék golf með honum þar og lét vel af því. Kolbeinn sagði við kylfing.is að það hafi verið gaman að spila með Guðrúnu. „Hún er mjög góð í golfi og högglöng. Það var erfitt fyrir mig að sjá hana slá alltaf 30-40 metrum lengri upphafshögg en ég,“ sagði Kolli og hló.
Ekki er hægt að sleppa spjalli við Guðrúnu án þess að ræða kostnaðinn í atvinnumannadrauminum. Ferðin til S-Afríku kosti sitt, t.d. hafi flugið kostað á fjórða hundrað þúsund krónur. Hún segir það stöðuga baráttu að ná í styrki og er þakklát fyrir stuðning frá Forskoti og fleiri aðilum. „Jú, þetta eru ekki stórar vinnings upphæðir á þessum stigi sem ég er að keppa á núna en þær fara hækkandi og kvennagolfið er í mikilli sókn í heiminum,“ sagði Guðrún Brá.
Guðrún hvetur kylfinga til að fylgjast með sér á samfélagsmiðlum, hún setur efni inn á Instagram og Facebook.