Golf er hinn fullkomni leikur: „Ekkert breytir því“, segir Stefán Hilmarsson
„Ég hef það frá fyrstu hendi, að á alþjóðlegri leikjaráðstefnu fyrir nokkrum árum, var gerð könnun á því meðal þátttakenda hver væri besti leikur allra tíma. Hvað eina sem kalla má leiki eða sport kom til greina, allt frá Matador upp í maraþon. Niðurstaðan var sú, að golf hafði vinninginn,“ segir söngvarinn Stefán Hilmarsson. Stebbi byrjaði seint að spila golf, knattspyrna og handknattleikur áttu sviðið þar til hann mætti á svið í orðsins fyllstu merkingu, en hann hefur lengi verið á meðal ástsælustu söngvara landsins, en er líklega þekktastur fyrir að hafa verið söngvari í Sálinni hans Jóns míns.

Blaðamaður bað Stefán að stikla á stóru þar til hann tók sér fyrst golfkylfu í hönd.
„Ég ólst upp í Hlíðunum, er Valsari og æfði fótbolta á sumrin en handbolta á veturna, eins og flestir á þeim tíma. Fótboltinn vék síðan sjálfkrafa, því ég var í sveit nokkur sumur. Ég snéri mér svo alfarið að handbolta, sem lá reyndar alltaf betur fyrir mér. Ég ól þó aldrei með mér atvinnumannadraum, enda ekki það hæfileikaríkur. Hins vegar urðu nokkrir á mínu reki síðar landsliðs- og atvinnumenn, t.d. Valdimar Grímsson, Geir Sveinsson, Júlíus Jónasson og fleiri.
Ég æfði upp í annan flokk, en þá var áhuginn farinn að dvína og önnur hugðarefni tekin við, þótt ekki hafi söngurinn verið ástæðan. Það var aðeins seinna sem ég gaf mig að tónlistinni, samt varla fyrr en á lokavetri mínum í Kvennó (1985-86), þegar skólabróðir minn talaði mig inná að taka þátt í tónlistaratriði á vegum skólans. Sá var jafnframt trommari í Sniglabandinu, sem vantaði söngvara um þetta leyti og hann fékk mig til að prófa það.

Síðan leiddi eitt af öðru. Ég hygg að fyrsta lagið sem vakti verulega athygli á mér hafi verið endurgerð lagsins „Átján rauðar rósir“ vorið 1987. Svo gerðust hlutirnir hratt og það leið varla ár uns Sálin var stofnuð. Á þessu ári söng ég m.a. einnig lögin „Jólahjól“ og „Sókrates“ í Eurovision-keppninni. Upp frá þessu hefur tónlistin verið stór hluti af mínu lífi og verður vonandi lengi enn“.

Átti „Nína“ þátt í að Stefán fór golfið?
Ef nefna á eitthvað í tónlistinni sem Stefán er betur þekktur fyrir en Sálina hans Jóns míns, þá er það líklega lagið sem hann flutti með Eyjólfi Kristjánssyni vini sínum, „Draumur um Nínu“, þegar félagarnir tóku þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd árið 1991. Það var einmitt Eyfi sem plataði Stebba með sér í golfið.
„Þegar Eyjólfur varð fertugur 2001, þá bað hann um golfvörur í afmælisgjöf og gott ef hann fékk ekki tvö golfsett. Hann átti þó engan félaga í sportinu og lagði til að við byrjuðum saman. Við höfðum reyndar lengi verið áhugamenn um golfið og um árabil fylgst með Tiger og öðrum snillingum í sjónvarpinu, þannig að það þurfti ekki fortölur til að fá mig í þetta sport. Síðan hef ég ekki horft til baka, ef svo má segja.
Við afréðum strax að fara til kennara og læra réttu handtökin, sem er auðvitað mikilvægt. Það var þó ekki langur „námstími“, en nóg til að koma manni ágætlega af stað. Síðan hef ég satt að segja lítið æft mig. Ég hefði mátt gefa því meiri gaum að fá leiðsögn í gegnum árin, þá væri ég kannski tæknilega betri en í dag. Ég er með ca. 13 í forgjöf núna, hef verið á bilinu 13-16 undanfarin allmörg ár.

Hámarks forgjöfin var 36 þegar ég byrjaði, en ég var fljótur að koma mér niður í 20. Mig minnir að lægst hafi ég náð í 11. Ég er þó bara sáttur við að vera á því róli sem ég er í dag og stefni ekkert sérstaklega að því að komast niður í eins stafs tölu, er ekki nægilega metnaðarsamur til þess. Ég spila reglulega í góðum vinahóp, þar sem við etjum kappi saman, sem er auðvitað gaman. Ég fer þess utan mjög sjaldan í formleg mót, enda oftar en ekki upptekinn við annað um helgar.
Blessunarlega fékk eiginkonan, Anna Björk, líka golfbakteríuna. Hún æfði íþróttir á yngri árum og var því nokkuð fljót að komast upp á lagið, en það hjálpar vissulega að hafa einhvern íþróttabakgrunn. Hún er mjög áhugasöm um golfið, í rauninni áhugasamari en ég. Við spilum reglulega saman og förum jafnframt stundum til útlanda að spila.
Svo má segja að yngri sonurinn, Steingrímur Dagur, sé alinn upp með golfinu, því við hjónin vorum bæði komin í golfgírinn þegar hann fæddist. Hann kom því oft með okkur út á völl, einkum erlendis, fór fljótlega að slá með okkur og náði góðum tökum. Hann er mjög frambærilegur og er kominn í eins stafs tölu í forgjöf, þótt hann stundi golfið nánast ekkert hér heima, enda á kafi í fótbolta“, segir Stefán.

Golf er fullkomnasti leikurinn. Staðfest.
Vinur Stefáns sagði honum fyrir nokkrum árum frá ráðstefnu sem hann sótti erlendis, þar sem leikir voru til umfjöllunar. Fór þar fram kosning um það hver væri besti leikur sem fundinn hefði verið upp.
„Þetta var reyndar tölvuleikjaráðstefna. Hins vegar var í þessari kosningu allt undir sem heitið getur leikur, íþrótt eða sport, jafnt í tölvu- sem mannheimum. Gáfu þátttakendur hverjum leik einkunn með því að haka í ýmis box er vörðuðu eiginleika ýmiskonar leikja. Þegar allt kom til alls, var niðurstaðan sú að golf þótti besti eða fullkomnasti leikurinn.
Þetta ætti ekki að koma kylfingum mjög á óvart, því golfið hefur svo margt sem aðrir leikir hafa síður. Má nefna keppnisþáttinn, jafnt við aðra sem sjálfan sig, félagsskap, jafnt með vinum, fjölskyldu sem og ókunnugum, útiveru, hreyfingu og náttúruna, jafnt fegurðina sem og baráttu við náttúruöflin þegar þannig háttar og svo mætti áfram telja.
Forgjafakerfið er einnig sterk breyta, sem gerði eiginlega útslagið á þessari ráðstefnu, því golf er leikur sem lengra og skemmra komnir geta keppt í á jafnræðisgrundvelli, ef svo má segja. Þannig get ég mjög mögulega haft Birgi Leif eða Rory undir með forgjöf, að því gefnu að ég hitti á góðan dag og þeir síður“, segir Stefán að lokum, með glott á vörum.


