Fréttir

Þrettán ára undrabarn í golfinu - komst í gegnum niðurskurðinn á atvinnumannamóti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 16. júní 2023 kl. 23:08

Þrettán ára undrabarn í golfinu - komst í gegnum niðurskurðinn á atvinnumannamóti

Þrettán ára kylfingur, Louis Klein frá Tékklandi hefur svo sannarlega komið á óvart á Kaskáda mótinu á Áskorendamótaröðinni sem nú fer fram í heimalandi hans, Tékklandi. Hann komst í gegnum niðurskurðinn aðeins 13 ára gamall, sá yngsti í sögunni. Haraldur okkar Franklín er við leik á sama móti. Þeir félagar eru á sama skori eftir 36 holur.

Þessi ungi kylfingur fékk tækifæri á að taka þátt í mótinu og nýtti það svo sannarlega og hefur leikið fyrstu tvo hringina á pari. Hann hefur leikið mjög gott golf, ekki síst ef tekið er tillit til þess að hann er áhugamaður og aðeins 13 ára. 

Klein hefur leikið báða hringina á parinu, fengið 7 fugla, fimm skolla og einn tvöfaldan skolla. Mögnuð frammistaða hjá drengnum. Hann er ekki að keppa á atvinnumannamóti í fyrsta sinn því hann lék á Opna tékkneska mótinu á DP Evrópumótaröðinni í ágúst í fyrra og munaði litlu að hann kæmist áfram í þriðja hring. Hann hefur leikið fleiri á stórum mótum í sínu heimalandi síðustu tvö árin. Klein sigraði t.d. á móti í byrjun júní á tékknesku mótaröð karla, lék á 67-68-68 og vann með níu högga mun. Þá varð hann Tékklandsmeistari karla 2022, aðeins tólf ára. Frammistaða hans hefur vakið heimsathygli.

„Þetta er góð tilfinning, þetta er góð mótaröð. Það er magnað að ég hafi komist í gegnum niðurskurðinn. Ég hef leikið vel en geri auðvitað mistök inni á milli. Ég lít mikið upp til Rory McIlroy en líka Tommy Fleetwood og ég vona að ég eigi eftir að keppa við bestu atvinnumenn heims,“ sagði ungi kylfingurinn í spjalli við Áskorendamótaröðina. Foreldrar hans fylgja honum á öll mót og faðir hans er kylfusveinn.