Fréttir

Neyðin kennir naktri konu að spinna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 28. nóvember 2024 kl. 14:12

Neyðin kennir naktri konu að spinna

„Við ákváðum þetta til að sporna við fækkuninni í klúbbnum en meðlimum Golfklúbbs Grindavíkur fækkaði talsvert á liðinu sumri,“ segir framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, Helgi Dan Steinsson. Klúbburinn ákvað á dögunum að lækka ársgjaldið niður í 44.900 krónur og vonast með því til að gamlir GG-félagar gangi aftur í klúbbinn en líka, að kylfingar utan Grindavíkur og þá aðallega á höfuðborgarsvæðinu, bíti á agnið.

Sumarið gekk vel segir Helgi og reksturinn gekk en talsverð fækkun varð í klúbbnum og vegna neyðartals yfirvalda var minna um heimsóknir kylfinga en venjulega.

„Tekjurnar drógust saman en kostnaðurinn gerði það sömuleiðis, við keyrðum þetta á algjörum lágmarks mannskap og vil ég hrósa starfsmönnum GG fyrir frábærlega unnin störf, gestir okkar gátu varla merkt mun á vellinum eða umhirðu hans þrátt fyrir að við værum svo fáir að vinna. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að völlurinn kom einstaklega vel undan vetrinum og hefur held ég aldrei verið eins góður. Kannski megum við þó þakka fyrir hversu margir komu og spiluðu golf í Grindavík en það nánast brást ekki þegar ég fór í erindagjörðum fyrir klúbbinn á höfuðborgarsvæðið og það barst í tal að ég væri að vinna á Húsatóftavelli, að viðkomandi hváði við og spurði hvort ég væri genginn af göflunum að vera vinna í svo hættulegu umhverfi. Það er búið að mata landsmenn á algerlega tilhæfulausum varnarorðum að mínu mati, um golfvöllinn. Það myndaðist sprunga við fremri teiginn á 13. holu og vegna hennar héldu allir að golfvöllurinn okkar væri eitt hættusvæði. Völlurinn var jarðvegsskimaður í bak og fyrir og til að byrja með máttum við ekki opna neðri völlinn en svo fékk ég leyfi til að merkja þau svæði þar sem grunur var um holrými. Við erum búnir að laga þau svæði og hvergi var sprunga, völlurinn hefur sennilega aldrei verið í eins góðu standi og í sumar.“

Engin bið á Húsatóftavelli

Meðalbiðtími til að komast í golfklúbb á höfuðborgarsvæðinu, getur farið allt upp í tvö ár og Helgi vonast til að ná eyrum og augum kylfinga á svæðinu og kynnir því lægsta ársgjald á sv-horninu, kannski er um lægsta ársiðgjald að ræða á öllu landinu.

„Neyðin kennir naktri konu að spinna, við urðum eitthvað að gera en nokkuð margir sögðu sig úr Golfklúbbi Grindavíkur fyrir síðasta sumar. Ég er smeykur um að þeim fjölgi enn þegar fólk er búið að koma sér fyrir á nýjum stað en vona að með þessu útspili, komum við í veg fyrir frekara brottfall. Fullt af Grindvíkingum búa á Suðurnesjunum og ég veit manna best hversu stuttan tíma tekur að keyra á Húsatóftavöll, ég bý í Keflavíkurhluta Reykjanesbæjar. Fyrir Grindvíkingana sem eru fluttir á höfuðborgarsvæðið, þeir munu ekki komast strax í golfklúbb þar því biðlistarnir eru oft á tíðum ansi langir. Fyrir þá og bara alla kylfinga á höfuðborgarsvæðinu, ég hvet þá til að íhuga að borga ársgjaldið hjá Golfklúbbi Grindavíkur. Það tekur enga stund að bruna til Grindavíkur, frá Hafnarfirði tekur ekki nema u.þ.b. hálftíma að komast á teig og þó svo að keyrslan sé eitthvað aðeins lengri en á velli á höfuðborgarsvæðinu, hversu þægilegt er að geta tekið ákvörðun að morgni um að fara í golf þegar sést hvernig veðrið er, á móti því að þurfa panta með þriggja sólarhringa fyrirvara upp á von og óvon um hvernig veðrið er. Ég þyrfti alla vega ekki að hugsa mig um tvisvar og hvet kylfinga til að hafa samband við mig, ég svara öllum spurningum og fyrirspurnum, bæði hægt að senda mér tölvupóst á [email protected] og símanúmer Golfklúbbs Grindavíkur er 426-8720. Eins er hægt að skrá sig á þessari vefslóð hér,“ sagði Helgi að lokum.

Helgi ásamt formanni GG, Hávarði Gunnarssyni
Helgi var á sínum tíma nokkuð liðtækur kylfingur en má í dag muna fífil sinn fegurri.