Fréttir

Smith sækir á Scheffler
Scottie Scheffler
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 9. apríl 2022 kl. 23:46

Smith sækir á Scheffler

Þriðja hring á fyrsta risamóti ársins, Masters mótinu, lauk í kvöld, á Augusta National í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Það var Scottie Scheffler frá Bandaríkjunum, efsti maður heimslistans, sem leiddi fyrir daginn í dag með fimm högga mun á 8 höggum undir pari.

Jafnir á 3 höggum undir pari voru Suður-Afríkumaðurinn og Masters meistarinn frá árinu 2011, Charl Schwartzel, Suður-Kóreumaðurinn Sungjae Im, Shane Lowry frá Írlandi og ríkjandi Masters meistarinn, Japaninn Hideki Matsuyama.

Þá var Ástralinn og Players meistarinn, Cameron Smith ekki langt undan á 2 höggum undir pari ásamt nokkrum öðrum kylfingum.



Það var einmitt Cameron Smith sem lék manna best í dag er hann kom í hús á 4 höggum undir pari og er fyrir lokahringinn einn í öðru sæti á 6 höggum undir pari.



Scheffler byrjaði vel í dag og var kominn tvö högg undir par á hringnum eftir 3 holur. Hann tapaði höggi á 4. braut en sótti fugl á bæði 6. og 8. braut og var á 3 höggum undir pari eftir fyrri níu holurnar. Ekkert virtist geta stoppað Scheffler. Fjórir skollar á seinni níu holunum á móti 2 fuglum urðu til þess að hann skilaði inn hring upp á 1 högg undir par og er samtals á 9 höggum undir pari fyrir lokahringinn á morgun.

Staðan á mótinu

Fyrstu menn fara út á lokahringinn upp úr klukkan tvö eftir hádegi á íslenskum tíma á morgun. Tiger Woods er í ráshópi með Spánverjanum Jon Rahm og eiga þeir rástíma rétt fyrir klukkan þrjú. Scottie Scheffler og Cameron Smith fara síðastir út klukkan 18:40 annað kvöld.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með baráttu þessarra frábæru kylfinga annað kvöld.

Stöð 2 Golf sýnir beint frá öllum keppnisdögunum á mótinu og hefst útsending klukkan 19:00.

Kylfingur fylgist vel með mótinu, bæði á vefnum og á samfélagsmiðlum.