Ragnhildur leiðir þegar Íslandsmótið er hálfnað
Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er með tveggja högga forystu í kvennaflokki eftir tvo hringi á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.
Ragnhildur lék annan hring mótsins á einu höggi undir pari og er samtals á 3 höggum undir pari eftir hringina tvo. Klúbbmeistarinn úr GR fékk tvo fugla og einn skolla á hring dagsins en töluverður vindur gerði flestum kylfingum erfitt fyrir.
Skorkort Ragnhildar.
Tveimur höggum á eftir Ragnhildi er Íslandsmeistari síðustu tveggja ára, Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK. Guðrún lék á pari Hlíðavallar í dag en púttin sviku hana örlítið á seinni níu.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR er í þriðja sæti á parinu í heildina eftir að hafa leikið á þremur höggum yfir pari í dag. Ólafía var á höggi yfir pari í dag eftir 15 holur en fékk skolla á 16. og 17. holu og hefur því þriðja daginn tveimur höggum á Ragnhildi.
Eftir hring dagsins er nánast orðið öruggt að baráttan um sigur í mótinu verður á milli Ragnhildar, Guðrúnar og Ólafíu en þær eru töluvert á undan næstu kylfingum.
Anna Júlía Ólafsdóttir og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir deila fjórða sætinu á 8 höggum yfir pari og næstu kylfingar koma þar rétt á eftir.
Staða efstu kvenna eftir tvo hringi:
1. Ragnhildur Kristinsdóttir, -3
2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, -1
3. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Par
4. Anna Júlía Ólafsdóttir, +8
4. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, +8
6. Saga Trastadóttir, +9
7. Berglind Björnsdóttir, +10
7. Nína Björk Geirsdóttir, +10
Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.
Ólafía Þórunn er í þriðja sæti eftir annan keppnisdaginn.