Fréttir

Svíinn með magnaðan sigur á Torrey Pines
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 17. febrúar 2025 kl. 15:14

Svíinn með magnaðan sigur á Torrey Pines

Svíinn Ludvig Åberg sigraði í annað sinn á PGA mótaröðinni þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Genesis mótinu á Torry Pines vellinum um helgina. Með sigrinum skaust hann upp í 4. sæti heimslistans en á tveimur árum á mótaröðinni hefur hann unnið sér inn um 2,5 milljarð króna.

Svíinn byrjaði illa á mótinu og lék fyrsta hringinn á tveimur yfir pari, 74 höggum en bjargaði sér í gegnum niðurskurðinn með góðum öðrum hring -6. Hann lék þriðja hringinn á -2 en kom svo með látum síðustu þrettán holurnar í lokahringnum sem hann lék á -6 og vann með einu höggi. Hann setti niður um þriggja metra fuglapútt á lokaholunni.

Bandaríkjamaðurinn Maverick McNealy sem flaug sjálfur á lítilli flugvél á mótsstað, virtist vera að hirða titilinn en slakur lokakafli í mögnuðum lokahring kom í veg fyrir það en kappinn var 9 undir pari eftir 13 holur. Hann lék síðustu fimm brautirnar á einu yfir pari.

Lokastaðan.

Tiger er einn af styrktaraðilum mótsins. Hann er hann á spjalli við Svíann í mótslok. Myndir/golfsupport.nl