Guðrún Brá og Haraldur í hópi íþróttafólks sem fær laun
Tveir kylfingar eru í hópi íslensks íþróttafólks sem mun fá laun úr nýjum sjóði, Launasjóði íþróttafólks, á árinu 2026. Þetta eru þau Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Haraldur Magnús Franklín. Þau hafa keppt á atvinnumannamótum erlendis undanfarin ár.
Launasjóður íþróttafólks var kynntur í vikunni. Í fyrsta sinn mun afreksíþróttafólk nú fá laun fyrir vinnu sína sem íþróttafólk. Hægt var að stíga þetta stóra skref í kjölfar viðbótar fjárframlags frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til afreksíþrótta á síðasta ári að því er kemur fram í frétt frá ÍSÍ.
Markmiðið er að gera afreksíþróttafólki kleift að setja íþrótt sína í forgang og einbeita sér að afreksíþróttastarfi með það að leiðarljósi að ná framúrskarandi árangri og komast í fremstu röð á alþjóðavettvangi.
Fjöldi þeirra sem hljóta laun er 32 einstaklingar og 3 pör, íþróttafólk í fremstu röð. Flestum er úthlutað til 12 mánaða, en mögulegum Ólympíuförum fyrir Vetrarólympíuleikana 2026 er úthlutað fram yfir leika.
„Þetta er bara hvetjandi og jákvætt,“ sagði Haraldur Franklín Magnús sem er með þátttökurétt á Hotel Planner Tour, Áskorendamótaröðinni, þeirri næst sterkustu í Evrópu.
„Ég er stolt og þakklát að vera partur af þessum frábæra hóp. Risastórt skref fyrir íslenskt afreksíþróttafólk,“ sagði Guðrún Brá á sinni heimasíðu eftir útnefninguna.
Guðrún hefur leikið á LET mótaröðinni og LET Access mótaröðinni, sem eru tvær efstu deildir í atvinnumennsku kvenna í Evrópu. Hún mun í mánuðinum taka þátt í úrtökumóti fyrir LET mótaröðina og freista þess að vinna sér þátttökurétt þar á næsta ári.

