Myndband: Ragnhildur sigraði á Símamótinu eftir bráðabana
GR-ingurinn Ragnhildur Kristinsdóttir fagnaði í dag sigri á Símamótinu sem fór fram á Hlíðavelli um helgina. Mótið var það fjórða í röðinni á tímabilinu 2017-2018 á Eimskipsmótaröðinni og var þetta fyrsti sigur Ragnhildar.
Ragnhildur og Helga Kristín Einarsdóttir enduðu jafnar að þremur hringjum loknum á 12 höggum yfir pari og því þurfti að grípa til bráðabana. Bráðabaninn fór fram á 10. holu sem er stutt par 4 hola en slegið er frá klúbbhúsinu. Ragnhildur gerði sér lítið fyrir og fékk fugl á holuna á meðan Helga Kristín rétt missti fuglapúttið og sigur Ragnhildar því í höfn.
Anna Sólveig Snorradóttir, GK, endaði í þriðja sæti á 19 höggum yfir pari, höggi betri en Saga Traustadóttir, GR, sem endaði í því fjórða.
Myndband af bráðabananum sem og verðlaunaafhendingunni má sjá hér fyrir neðan.