Fréttir

Haraldur Franklín efstur eftir fyrsta hring á Spáni
Sunnudagur 26. febrúar 2023 kl. 19:48

Haraldur Franklín efstur eftir fyrsta hring á Spáni

Sex íslenskir kylfingar leika nú á Ecco mótaröðinni á PGA Catalunya á Spáni. Leikið er á tveimur völlum, Stadium og Tour. Haraldur Franklin Magnús GR lék fyrsta hringinn á Stadium vellinum frábærlega á 6 höggum undir pari, 66 höggum og  er hann jafn í fyrsta sæti ásamt Jonas Lykke Sörensen.

Fjórir aðrir Íslendingar leika á mótinu, Andri Þór Björnsson GR (+2), Arnór Tjörvi Þórsson GR (+3), Axel Bóasson GK (+5), Elvar Kristinsson GR (+5), Hákon Örn Magnússon GR (+5). Haraldur Franklín er sá eini sem er fyrir ofan niðurskurðarlínuna eftir fyrsta hring en hún miðast við par vallar.

Mótið er það fyrra af tveimur sem leikið er á Ecco mótaröðinni á PGA Catalunya á Spáni. Fjöldi Íslendinga hefur leikið á þessum frábæru völlum sem eru rétt utan við Barcelona á Spáni.

„Það er frábært að komast út á gras og keppa. Ég var bara nokkuð góður í dag, sló alveg eins og engill og fékk mikið af gefnum fuglum. Ég er búinn að æfa vel undir leiðsögn Snorra Páls Ólafssonar þjálfara míns. Við erum búnir að æfa í Básum, inni á Korpunni og svo hjá Viggó í Golfklúbbnum. Vonandi kemst ég inn á Challenge Tour mót á Indlandi í mars. Það eru fá sæti í boði, en ég verð að keppa og halda mér við“, sagði Haraldur Franklín Magnús kátur eftir fyrsta hringinn á Ecco mótaröðinni á Spáni. 

Fylgjast með mótinu hér.