Guðmundur í toppbaráttunni á Spáni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson átti besta hring keppenda á öðru degi á Challenge de Espana mótinu á Áskorendamótaröðinni í Evrópu sem fram fer á Fontananals vellinum í Girona á Spáni. Þetta er fyrsta mót hans og Haraldar Franklín á þessu ári en þeir eru með keppnisrétt á mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu og heitir nú Hotelplanner tour.
Guðmundur er í toppbaráttunni þegar mótið er hálfnað en hann er á níu höggum undir pari. Hann lék fyrsta hringinn á 70 höggum, -2 en seinni hringurinn var sá besti í mótinu en hann lék þá á 65 höggum, 6 undir pari. Á hringnum fékk Guðmundur tíu fugla en fjóra skolla og hitt pör. Einn annar keppandi hefur leikið á 65 höggum.
Þegar þetta er skrifað hefur Guðmundur leikið fyrstu fjórar holurnar á -2.
Haraldur Franklín Magnús var á -3 eftir fyrstu tvo hringina og hefur bætt við einum fugli á fyrstu þremur brautunum á þriðja hring.