Fréttir

Halldór og Dagný sigruðu á Skagfirðingamótinu
Á níunda tug Skagfirðinga mætti í árlegt mót á Hamarsvelli í ár.
Þriðjudagur 28. ágúst 2012 kl. 13:50

Halldór og Dagný sigruðu á Skagfirðingamótinu

Árlegt golfmót burtfluttra Skagfirðinga á suðvesturhorninu, Skagfirðingamótið, fór fram á Hamarsvelli í Borgarnesi á laugardag, fimmta árið í röð þar.
 
Árlegt golfmót burtfluttra Skagfirðinga á suðvesturhorninu, Skagfirðingamótið, fór fram á Hamarsvelli í Borgarnesi á laugardag, fimmta árið í röð þar. Alls mættu á níunda tug kylfinga til leiks við kuldalegar og vindasamar aðstæður, sem settu sitt mark á skorið.
 
Halldór Halldórsson GSS sigraði í karlaflokki með 32 punkta og í kvennaflokki sigraði Dagný Guðmundsdóttir GÁS með 31 punkt. Halldór átti einnig besta skorið á mótinu, 83 högg, og fékk ein verðlaun til viðbótar ásamt eiginkonu sinni, Ragnheiði Matthíasdóttur GSS, sem punktahæsta par mótsins annað árið í röð. Alls voru 28 pör/hjón skráð til leiks. Halldór er héraðsdómari á Norðurlandi vestra og Dagný er framkvæmdastjóri Cintamani og „tengdadóttir“ Skagafjarðar og Borgarfjarðar til hálfs!
 
Verðlaun á mótinu eru jafnan mjög vegleg, að þessu sinni veitt fyrir 10 efstu sæti í karla- og kvennaflokki auk nándarverðlauna á par 3 brautum og lengdarverðlauna á 18. holu í báðum flokkum, svo ekki sé nú minnst á úrdráttarverðlaun. Kylfingar úr Skagafirði hafa verið duglegir að aka suður til móts við gamla sveitunga en mótið hefur verið haldið frá árinu 1998 og er eitt hið stærsta sinnar tegundar hér á landi. 
 
Styrktaraðilar voru alls 38 fyrirtæki og einstaklingar, og kunna aðstandendur mótsins þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn. Stærstu styrktaraðilar voru Flugfélag Íslands, Landsbankinn á Sauðárkróki, Hótel Hamar, Sæblik, Icelandair, Dale Carnegie á Íslandi, Ölgerðin, Nói-Síríus, Íslandsbanki, Gæðingur Öl, Límtré Vírnet, Cintamani, Íslenska auglýsingastofan og Sjöfn Sigfúsdóttir.
Aðrir gefendur verðlauna voru Kaupfélag Skagfirðinga, Mjólkursamlag KS, Sauðárkróksbakarí, Hlíðarkaup, Steinullarverksmiðjan, Byko, Morgunblaðið, Stöðin Borgarnesi, Vodafone, Smith og Norland, Flugger-litir, Fjarðarbakarí, Reynir bakari, Passion bakarí, Íslenska umboðssalan, Fiskkaup, Nafir fasteignafélag, HH-trésmiðir, Arctic Trucks, Brimborg, Bókaútgáfan Hólar, Golfbúðin Hafnarfirði, Bakkus og Málaramiðjan.
 
 
Dagný Guðmundsdóttir GÁS sigraði í kvennaflokki á Skagfirðingamótinu.
 
 
Halldór Halldórsson GSS sigraði í karlaflokki, átti besta skor dagsins og þau Ragnheiður Matthíasdóttir voru punktahæstu hjón mótsins, annað árið í röð.
 
Heiðursmannahollið, fv. Gunnar Þ. Guðjónsson GO, mótsformaður, Sigmundur Guðmundsson GSS og Ólafur R. Ingimarsson GR.
 
 
Frá verðlaunaafhendingunni í mótslok. Vindbarðir Skagfirðingar en sælir og glaðir eftir góðan dag.