Fréttir

Haraldur lék vel og endaði í 12. sæti - Axel í gegn en Guðmundur ekki
Haraldur Franklín lék vel í Tékklandi. Myndir/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 5. október 2024 kl. 15:46

Haraldur lék vel og endaði í 12. sæti - Axel í gegn en Guðmundur ekki

Haraldur Franklín Magnús endaði jafn í 12. sæti á Czech Challenge mótinu á Áskorendamótaröðinni sem leikið var á Royal Beroun golfvellinum í Tékklandi. Axel Bóasson endaði í 62. sæti en Guðmundur Ág. Kristjánsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Haraldur Franklín lék frábært golf fyrstu þrjá hringina en náði ekki að fylgja því eftir í lokahringnum og lék hann á einu höggi yfir pari eftir að hafa leikið fyrstu þrjá á 18 höggum undir pari. Hann var jafn í 4. sæti eftir fyrstu þrjá hringina (63-63-66-71) og slakur lokahringur kostaði okkar mann slatta af evrum og stigum á stigalistann. Haddi hefur leikið í 18 mótum á Áskorendamótaröðinni og komist í gegnum niðurskurðinn sjö sinnum. Hann lék í tveimur mótum á DP mótaröðinni í lok árs 2023 og endaði í 33. sæti í öðru þeirra. Á leiktíðinni hefur hann unnið sér inn um 31 þúsund evrur eða tæpar 5 milljónir króna. Besti árangur ársins er 9. sæti en síðan 12. og 13. sæti.

Axel Bóasson lék á átta höggum undir par og endaði jafn í 62. sæti (69-66-70-67). Hann hefur leikið í sextán mótum á árinu og komist í gegnum niðurskurðinn fjórum sinnum. Verðlaunafé um 4.800 evrur eða rúmar 700 þúsund krónur.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék fyrstu tvo hringina á tveimur undir pari en það dugði ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn en skorið var mjög lágt á mótinu. Hann hefur leikið í 17 mótum og fimm sinnum komist í gegnum niðurskurðinn. Guðmundur lék mjög vel ámóti í Danm-örku í lok maí þegar hann varð jafn í 2. sæti. Verðlaunafé ársins er um 41 þúsund evrur eða um 6,4 milljónir króna.