Fréttir

Bjarki ráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 15. október 2024 kl. 11:56

Bjarki ráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness

Atvinnukylfingurinn Bjarki Pétursson, hefur verið ráðinn sem framkvæmdarstjóri Golfklúbbs Borgarness. Bjarki er mörgum meðlimum GB kunnugur enda uppalinn á Hamarsvelli og búsettur í Borgarnesi allt sitt líf.
Bjarki varð Íslandsmeistari í golfi árið 2020 og hefur starfað sem einn fremsti atvinnukylfingur Íslands í golfi síðastliðin þrjú ár. Hann keppti á árinu á Nordic mótaröðinni og fékk einnig nokkur tækifæri á Áskorendamótaröðinni. Hann tók þátt í úrtökumóti á 1. stigi í haust en komst ekki áfram. Hann sagði við kylfing.is að hann væri ekki alveg búinn að gefa atvinnumanninn upp á bátinn og myndi líklega reyna fyrir sér í úrtökumóti fyrir DP mótaröðina á næsta ári. 
Bjarki útskrifaðist frá Kent State University í Bandaríkjunum árið 2019 með BA gráðu í Communication Studies. Við bjóðum Bjarka hjartanlega velkominn og hlökkum til að starfa með honum í framtíðinni.
Á myndinni handsala þeir Bjarki og Snæbjörn Óttarsson formaður GB ráðninguna.