Fréttir

Kom fagnandi að 17. holunni í Leirdalnum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 4. október 2024 kl. 09:26

Kom fagnandi að 17. holunni í Leirdalnum

Eyjapeyinn og knattspyrnukempan Leifur Geir Hafsteinsson valdi heldur betur tímann til að ná draumahögginu, hann náði því þegar bændaglíma GKG fór fram um síðustu helgi en alltaf er stórt og mikið lokahóf hjá klúbbnum að því loknu. Leifur hafði keypt sér tryggingu hjá Verði og gat boðið öllum í skálanum upp á bjór og var því svo sannarlega hrókur alls fagnaðar þennan laugardag, 28. september.

Leifur Geir er ekki við eina fjölina felldur, hann er tónlistarmaður og hefur samið nokkur lög, þekktast þeirra líklega stuðningsmannalag ÍBV, Komum fagnandi. Hann hefur haldið Bítlasyrpu gangandi í mörg ár, hann er forsprakki Vina & vandamanna sem er hópur tónlistarfólks frá Vestmannaeyjum, m.a. afkomendur Oddgeirs Kristjánssonar og Ása í bæ en Leifur er einmitt barnabarna Oddgeirs. Vinir & vandamenn eru á leið í hljóðver að taka upp eldgömlu þjóðhátíðarlögin svo það má sjá á þessari upptalningu að Leifur hefur nóg fyrir stafni.

Hvernig var tilfinningin þennan laugardag?

„Þetta var auðvitað afskaplega ánægjulegt, því ber ekki að neita. Ég hafði náð þessu á par 3 velli en það telur víst ekki eins mikið og pínu fyndið að það hafði borist í tal hjá mér og frænda mínum nokkrum dögum fyrr. Tímasetningin gat líklega ekki verið betri, bændaglíman hjá GKG er alltaf vel sótt mót og ég var í frábæru holli þennan dag, m.a. með Birgi Hrafni bróður mínum sem tók upp myndbandið á leið minni að holunni. Ég hef alltaf verið bindindismaður en hafði mjög gaman af því að geta boðið öllum í skálanum upp á bjór í boði Varðar, tryggingarfélagsins. Þetta var mjög skemmtilegt og ég á eftir að lifa lengi á þessu,“ sagði Leifur Geir.

Myndband af gleðigöngu Leifs Geirs er með þessari frétt.