Fréttir

Guðmundur og Bjarki í góðum málum í Frakklandi
Guðmundur Ágúst er að leika vel í Frakklandi.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
föstudaginn 17. september 2021 kl. 20:26

Guðmundur og Bjarki í góðum málum í Frakklandi

Annar hringur Hopps Open de Provence á Áskorendamótaröð Evrópu var leikinn í dag.

Íslensku kylfingarnir áttu misjöfnu gengi að fagna.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson eru í fínum málum og fóru örugglega í gegnum niðurskurðinn en Andri Þór Björnsson og Haraldur Franklín Magnus eru úr leik.

Guðmundur Ágúst er á átta höggum undir pari og jafn í 7. sæti mótsins. Hann lék hring dagsins á fimm höggum undir pari án þess að fá skolla.

Bjarki Pétursson lék einnig vel og er samtals á fimm höggum undir pari eftir að hafa leikið á tveimur undir í dag. Bjarki er ásamt öðrum í 23. sæti mótsins.

Andri lauk leik á tveimur höggum yfir pari og var fjórum höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Haraldur var ólíkur sjálfum sér og var langt frá því að komast áfram.

Lukas Nemecz frá Austurríki er efstur á 14 höggum undir pari.

Staðan í mótinu