Fréttir

Lukkudísirnar voru með Campbell sem vann í fyrsta sinn á PGA
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 24. febrúar 2025 kl. 09:39

Lukkudísirnar voru með Campbell sem vann í fyrsta sinn á PGA

Lukkudísirnar voru með Bandaríkjamanninum Brian Campbell í bráðabana um sigurinn á Mexico mótinu á PGA mótaröðinni í gær. Upphafshöggið hans á annarri bráðabanaholu fór út fyrir vallarmörk en boltinn fór í tré og skaust inn á völl. Campbell tryggði sér svo fugl en hinn tvítugi Aldrich Potgieter frá S-Afríku þurfti að lúta í gras. Algerlega magnaður lokakafli en Campbell hafði fyrir mótið leikið síðustu sjö árin á Korn Ferry mótaröðinni sem er næst deild fyrir neðan PGA að undanskildu einu keppnistímabili 2017-2018 á PGA, í alls 186 mótum án þess að sigra. Nú kom sigurinn og hann mun breyta lífi þessa þrítuga kylfings.

Í þessu móti voru allir nýliðarnir á PGA mótaröðinni meðal keppenda og lang flestir af stærri nöfnunum voru ekki með. Það var því pláss fyrir minni spámenn sem sannarlega nýttu sér það.

Campbell og Potgieter enduðu báðir á tuttugu undir pari í mjög spennandi móti. Sigur á mótinu tryggir hinum 31 árs Campbell þátttökurétt á PGA mótaröðinni út árið 2027 en hann fær líka keppnisrétt í mörgum af stærri mótum ársins eins og Masters og PGA meistaramótinu.

„Maður þarf stundum heppni til að hlutir gerist. Upphafshöggið var ekki gott en ég hafði lukkuna með mér og það er óraunverulegt að maður hafi unnið mótið,“ sagði sigurvegarinn sem fagnaði innilega en þó ekki eins og eiginkona hans sem felldi tár.

Potgieter er aðeins tvítugur og hefur verið einn besti kylfingur S-Afríku undanfarin ár. Hann er mjög högglangur og tapaði höggum í stutta spilinu í lokahringnum. Margir spá honum frama.

Daninn Nikolai Höjgaard sem er á sínu fyrsta ári á PGA endaði í 8. sæti og var meðal tíu efstu í annað sinn á nýbyrjaðri keppnistíð.