Fréttir

Guðmundur lék í lokaráshópi á 3. hring
Laugardagur 25. febrúar 2023 kl. 13:24

Guðmundur lék í lokaráshópi á 3. hring

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GKG lék í beinni útsendingu á Viaplay á þriðja hring Hero Indian Open á DP mótaröðinni. Guðmundur fékk fljúgandi start, frábæra fugl á fyrstu holu. Um miðbik hringsins hrökk allt í baklás og hann fékk fjóra skolla á fimm holu m frá 6. til 10. Tveir skollar til viðbótar bættust við á 13. og 14. áður en næsti fugl lét sjá sig á þeirri fimmtándu. Guðmundur þá kominn 4 yfir par á hring dagsins. Á 16. fékk hann svo sinn fyrsta skramba, par á 17. og fugl á 18. Sannarlega skrautlegur hringur sem fer í reynslubankann, en Guðmundur Ágúst er í sínu 8. móti á DP mótaröðinni búinn að afreka það að leika í lokaráshópi á þriðja degi. Frábær árangur. Fjöldi íslenskra kylfinga voru vaknaðir snemma til að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Viaplay og Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar var með opið hús frá kl. 8:30 þar sem kylfingar gátu komið saman að fylgjast með sínum manni.

Guðmundur er jafn í 28. sæti eftir þrjá hringi á pari vallar. Yannik Paul frá Þýskalandi er efstur á 11 höggum undir pari, höggi betri en landi sinn Marcel Siem.

Guðmundur Ágúst hefur leik kl. 3:49 í nótt að íslenskum tíma á lokahringnum. Hér er viðtal við Guðmund á heimasíðu DP mótaraðrinnar.

Sjá stöðuna í mótinu hér.