Fréttir

Golfklúbburinn Esja sigraði í 3. deild Íslandsmóts Golfklúbba
Esjumenn hafa farið upp um tvær deildir á tveimur árum
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 16. ágúst 2021 kl. 09:01

Golfklúbburinn Esja sigraði í 3. deild Íslandsmóts Golfklúbba

Keppni í 3. deild Íslandsmóts Golfklúbba lauk í Grindavík í gær.

Eftir spennandi keppni var það Golfklúbburinn Esja sem bar sigur úr býtum og færist upp í 2. deild.

Esja mætti Golfklúbbi Borgarness í úrslitum og hafði nokkuð þægilegan sigur. Heimamenn í Golfklúbbi Grindavíkur sigruðu liðsmenn Golfklúbbsins á Flúðum í leik um 3. sætið.

Golfklúbbur Norðfjarðar þurfti að bíta í það súra epli að enda í neðsta sæti og fellur um deild. Golfklúbbur Byggðarholts sigraði í 4. deild og taka sæti Norðfirðinga.

Esjumenn eru á miklu flugi og hafa farið upp um tvær deildir á tveimur árum án þess að tapa leik. Í liði Esju eru margir reynslumiklir kylfingar og hafa tveir þeirra nú sigrað í öllum fjórum efstu deildum Íslandsmóts Golfklúbba. Það eru Magnús Lárusson sem sigraði í efstu deild með Mosfellingum og Birgir Guðjónsson sem sigraði efstu deild með Golfklúbbi Reykjavíkur.

Auk þeirra skipuðu Björn Þór Hilmarsson, Guðjón Karl Þórisson, Helgi Anton Eiríksson og Tómas Salmon sveit Esju.

Það verður spennandi að sjá hvort Esju takist að komast upp í efstu deild á næsta ári en þar mæta þeir meðal annars Keilismönnum sem eflaust ætla sér beint upp í deild þeirra bestu aftur.