Fréttir

Golfhringnum um Ísland lokað!
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 28. júlí 2023 kl. 12:30

Golfhringnum um Ísland lokað!

„Þetta er með skemmtilegri verkefnum sem við höfum tekið fyrir. Þetta hófst í framhaldi af því að við vorum búin að spila alla vellina á Austfjörðum sumarð 2019. Þá var ekkert annað að gera en að halda áfram og taka aðra landshluta markvisst fyrir. Svo var gaman að enda í Leirdalnum, GKG,“ segir Guðrún Karítas Garðarsdóttir en hún og maður hennar Böðvar Kristjánsson lokuðu golfhring Íslands í Leirdalnum nýlega og höfðu þá leikið alla golfvelli landsins.

Guðrún segir að eftir að hafa leikið vellina fyrir austan hafi suðurströndin verið skipulögð. „Við lögðum í hann eftir fyrstu covid samkomubanns afléttingu í byrjun maí 2020 (https://www.kylfingur.is/frettir/vor-golfferd-um-sudurstrond-islands). Sumarið 2021 gerðum við gott Vestfjarða frí úr þessu (https://www.kylfingur.is/frettir/golf-a-vestfjordum-kemur-a-ovart) og sumarið 2022 skipulögðum við frí í uppsveitum Suðurlands og kláruðum vellina frá Flúðum að Öndverðarnesi. Inn á milli höfum við svo tikkað í boxin á höfuðborgarsvæðinu en ákváðum þó strax, eða réttara sagt annað okkar ákvað strax, að enda hringinn á GKG (upphafsstafir Guðrúnar). GO og GKG voru eftir í lok sumars 2022 en ýmsir þættir urðu þess valdandi að við fórum með þessa tvo velli ókláraða inn í árið 2023.

Oddurinn var spilaðu í blíðskaparveðri mánudaginn 24. júlí.  Umhverfið stórkostlegt og völlurinn virkilega flottur.  Daginn eftir var svo komið að lokahring hjá GKG.  Leirdalurinn fannst okkur virkilega skemmtilegur.  Opinn völlur og krefjandi.  Hlökkum mikið til að spila völlinn aftur við fyrsta tækifæri,“ segir Guðrún en hvað er eftirminnilegast úr þessu skemmtilega golfverkefni?

„Það sem uppúr stendur er ferðin á Vestifirði. Sex vellir eru á því svæði og komu þeir okkur allir á óvart. Í öllum tilfellum voru þeir vel hirtir og kylfingar á þessum stöðum vinna mikið og óeigingjarnt starf við að halda starfseminni úti.  Að ferðast sem golfari um Ísland er fullkomið frí. Góður göngutúr í fallegu umhverfi og nánast sama hvar við komum voru flottir veitingastaðir með frábæran mat úr héraði. Toppurinn á þessu öllu eru svo móttökurnar sem við fengum hjá GKG bæði fyrir og eftir hring. Algjörlega ógleymanlegur dagur í Leirdalnum!“

Okkar uppáhalds vellir.  Ekki hægt að gera upp á milli þeirra og raða í einhver sæti.

9. holu:

Hornafjörður > stórkostlegt umhverfi, sjórinn og Vatnajökull

Bolungarvík > skemmtilegur völlur með tvö teigasett sem gerir hann í raun að 18 holu velli

Neskaupsstaður > þægilegur völlur í fallegu umhverfi

Stykkishólmur > eiginlega okkar uppáhalds.  Vel hirtur, umhverfið stórkostlegt og tvær ævintýraholur (6. og 9.)

Ísafjörður > flottur völlur í Tungudal þar sem lognið á lögheimili eins og heimamenn segja 😊

Skagaströnd > kom skemmtilega á óvart

18 holu:

Leiran > alltaf flott, vel hirt og refsar

Keilir > fjölbreytt umhverfi annars vegar í hrauni og hins vegar á breiðum og flottum brautum

Grafarholt > fallegt umhverfi í miðri borg.  Minnir okkur á hinn akureyrska Jaðar.

Jaðar > heimavöllurinn okkar.  Fallegur skógarvöllur með talsverðu landslagi

Vestmannaeyjar > umhverfið; dalurinn og sjórinn

Leirdalur > flottur völlur inn í byggð og klúbburinn mögulega með flottasta logo allra golfklúbba 😊