Fréttir

Golf á Vestfjörðum kemur á óvart
Mánudagur 19. júlí 2021 kl. 07:02

Golf á Vestfjörðum kemur á óvart

„Í samkomubanni og vetrarmyrkri tókum við hjónin ákvörðun um að fara góða og snarpa sumargolfferð á svæði sem við höfðum ekki spilað á.  Vorið 2020 fórum við alla suðurströndina, við náðum að klára alla vellina á Austfjörðum haustið 2020 og núna var komið að Vestfjörðunum,“ segir Guðrún Karitas Garðarsdóttir en hún og maður hennar Böðvar Kristjánsson eru duglegir og góðir kylfingar, hann er með 6 og hún með 18 í forgjöf og þau hafa haft það markmið síðustu árin að leika sem flesta golfvelli á Íslandi. 

„Við festum strax daga sem við vissum að myndu henta okkur, 30. júní – 6. júlí.  Upphafsstaður ferðar var Hólmavík þar sem við gistum fyrstu nóttina.  Ókum að heiman frá Akureyri í 24 stiga hita, á útleið úr bænum kom bóndinn við í seinni bólusetningu og á Blönduósi var hann útsleginn af aukaverkun.  

Frá Akureyri til Hólmavíkur er svipuð vegalend og tekur að keyra frá Akureyri til Reykjavíkur.  Ansi góð tilbreyting að taka hægri beygju við Staðarskála og bruna inn á Strandirnar þar sem umhverfið er virkilega fallegt.  Við komuna til Hólmavíkur var samferðamaðurinn orðinn hress eftir góðan svefn og því ekkert til fyrirstöðu að finna golfvöllinn,“ segir Guðrún sem tók saman pistil fyrir kylfing.is um golfferðina á Vestfirði.

Skeljavíkurvöllur - Hólmavík

Veðrið var bjart en lognið fór full hratt yfir, gul viðvörun var á svæðinu en við létum það ekki á okkur fá.  Völlurinn á Hólmavík er 9 holu völlur staðsettur rétt fyrir utan bæinn niðri við sjó.  Langar brautir og nokkuð vel hirtur völlur.  Þarna er greinilega hugur í fólki því verið er að byggja upp allavegana eina nýja flöt. Við spiluðum bara einn hring á Hólmavík sökum vinds.

Tungudalsvöllur - Ísafjörður

Næsta dag var ekið sem leið lá til Ísafjarðar í dásamlegu veðri, bjart og mikil fjallasýn.  Aksturinn frá Hólmavík til Ísafjarðar tekur um tvær og hálfa klukkustund, yfir Steingrímsfjarðarheiði og eftir það tekur við akstur um fallega firði.  Golfvöllurinn á Ísafirði er inni í Tungudal, við tjaldsvæðið og fallega skógrækt.  Við heyrðum því fleygt að í Tungudal búi lognið og getum við staðfest það.  Veðrið var virkilega gott og viðmót heimafólks frábært.  Þarna var dagur 2 í meistaramóti klúbbsins í gangi en samt sem áður var lítið mál fyrir aðkomufólk að spila.

Völlurinn á Ísafirði er frábær, slegið yfir ár og hæðir og hætturnar því nokkrar.  Það kom aldrei annað til greina en að spila 18 holur í Tungudalnum enda veðrið og völlurinn algjörlega til fyrirmyndar.  Eftir 18 holur á Ísafirði var seinnipartur fimmtudags skollinn á og næsti áfangastaður Bolungarvík.  Þar vorum við með gistingu í tvær nætur.  Korters akstur er á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og því auðveldlega hægt að spila báða vellina á einum degi.  En okkur lá ekkert á því í svona ferð þarf líka að njóta þess sem staðirnir hafa upp á bjóða í mat og annarri afþreyingu.

Syðridalsvöllur - Bolungarvík

Föstudaginn 2. júlí vöknuðum við í Bolungarvík í brakandi blíðu og voru Spánar dressin dregin upp úr töskunum.  Fyrirfram hafði ég ekki gert ráð fyrir því að fá að spila golf í þessu dásamlega umhverfi í svona veðri.  Völlurinn í Víkinni (eins og heimafólk myndi segja) er frábær 9 holu völlur sem nær að vera 18 holur því á hverri braut eru tveir gulir og tveir rauðir teigar.  Landið við Syðridalsvöll er stórbrotið, með mikla fjallasýn og á björtum dögum er útsýni út á björgin við Jökulfirði.  Völlurinn er sannkallaður strandvöllur, umlukinn sandhólum og melgresi.  Við spiluðum 9 holur fyrir hádegi og ákváðum að fresta seinni 9 fram á seinnipart og taka þátt í Texas scramble móti hjá heimamönnum og sjáum við ekki eftir því.  Mikil gleði og gestrisni einkenndi seinnipartinn á Syðridalsvelli.  Takk fyrir okkur kæru Bolvíkingar.

Laugardagur 3. júlí og áfram lék veðrið við okkur.  Tveggja nátta dvöl á Bolungarvík lokið og upp var runninn dagur þar sem endastöð var Patreksfjörður.  Á þessari leið eru golfvellir á Þingeyri, Bíldudal og Patreksfirði.  Okkur lá þó ekkert á að spila golf heldur nutum þess að keyra inn á alla firði.  Fyrsta stopp var á fallegu Suðureyri við Súgandafjörð og eftir það komum við á Flateyri þar sem listir og menning blómstra sem aldrei fyrr.  Litum við á Núpi við Dýrafjörð og þaðan lá leiðin á Þingeyri.  

Meðaldalsvöllur - Þingeyri

Völlurinn er staðsettur rétt utan við bæinn, þ.e. ekið er í gegnum Þingeyri og áfram stuttan spotta út fjörðinn.  Við vorum ekki viss með völlinn á Þingeyri, þ.e. hvort við gætum spilað hann.  Höfðum haft fregnir af því í Bolungarvík að völlurinn væri ekki opinn lengur.  Þegar við komum að Meðaldal lyftist brúnin heldur betur á okkur því við sáum að flögg voru á öllum flötum og okkur greinilega ekkert til fyrirstöðu að rífa fram golfsettin.  Brautirnar voru vel slegnar og allt nokkuð vel hirt.  Staðsetning vallarins er mjög falleg, inni í dal, umkringdur fjöllum.  Skemmtilegasta golfhola Vestfjarða er á þessum velli, 7. braut, par 3 hola þar sem slá þarf yfir vatnstorfæru og stíflu og inn á nokkuð mjóa flöt.  Ekkert má útaf bregða því þá er boltinn annað hvort í ánni eða í lyngivaxinni brattri hlíð.  Enduðum bæði í hlíðinni en tókst að finna báða boltana og komast skammarlaust inn á flöt.  Mælum svo sannarlega með heimsókn á þennan völl.

Kvöddum Þingeyri og héldum sem leið lá til Bíldudals.  Ekið er um ný Dýrafjarðargöng og eftir þau meðfram Mjólkárhlíð sem liggur að Dynjanda.  Vegurinn um Mjólkárhlíð er ansi brattur og ekkert sérlega breiður og mælir undirrituð með að lofthræddir fresti för þar til nýr vegur, sem verið að er að leggja niðri við sjó og komin góð mynd á, verður tilbúinn!

Litlueyrarvöllur - Bíldudalur

Vorum komin seinnipart laugardags á Bíldudal, síðustu holl að klára á lokadegi meistaramóts klúbbsins og því lítið mál fyrir okkur að hefja leik. Þarna spiluðum við seinni 9 holur dagsins í dásamlega fallegu veðri, hægur vindur og heiðskýrt. Völlurinn sérlega vel merktur og meira að segja tekið fram hvar ætti að skilja kerrur eftir. Eins og áður í ferðinni þá stóðst þessi völlur allar væntingar.  Virkilega skemmtilegur inn á milli fjalla með útsýni að þorpinu.  Eftir golfhring og mat ókum við svo áfram til Patreksfjarðar þar sem við áttum bókaðar tvær nætur í gistingu.

Vesturbotnsvöllur - Patreksfjörður

Sunnudagsmorgunn og þéttur þokuslæðingur í firðinum.  Golfvöllurinn er 10 km fyrir utan bæinn á eina grasblettinum þarna megin í firðinum.  Völlurinn var sérstaklega vel hirtur, allar flatir vel slegnar og stundum full hraðar fannst okkur (betra að kenna flöt um en lélegu pútti!!).  Miklar lúpínubreiður umlykja völlinn og því eins gott að halda sér á braut. Þetta var síðasti völlur hringsins og því ekkert annað í stöðunni en að spila 18 holur.  Mjög skemmtilegur og opinn völlur.

Ferðin var í alla staði frábær og vellirnir á Vestfjörðum ollu okkur ekki vonbrigðum.  Fyrir utan Golfklúbb Ísafjarðar og Bolungarvíkur þá eru hinir klúbbarnir með mest um 40 meðlimi og því er það aðdáunarvert hversu vel haldið er um hlutina á þessum stöðum.  Vallargjöld fyrir hjón voru á öllum stöðum kr. 5.000, alls staðar koma bankaupplýsingar fram sem gerir ferðagolfurum eins og okkur auðvelt að greiða fyrir hringinn áður en spilað er.  Hvergi þurfti að bóka rástíma, við höfðum helst haldið að þess þyrfti á Ísafirði og skelltum því í símtal þangað deginum áður.  Af og frá sagði sá sem svaraði, bara mæta!

Um alla Vestfirði eru veitingastaðir sem gaman og gott var að heimsækja.  Ókum Barðaströndina áleiðis heim og kom okkur á óvart hvað vegurinn þar um var góður.  Yfir það heila dásamleg ferð, gestrisni mikil, vegir nokkuð góðir en sumir aðeins of háir að sumra mati.   Það verður því ekki langt þangað til við mætum aftur vestur í golf.

Samkvæmt GSÍ er fjöldi golfvalla á Íslandi 63, við erum búin að spila 40 og allir hafa sinn sjarma.  Við hvetjum kylfinga landsins til að heimsækja golfvelli á ferð sinni um landið og um leið að styrkja þessa litlu klúbba með vallargjaldinu.  Okkur skilst nefnilega að litlu kúbbarnir séu að borga hlutfallslega meira til GSÍ en stóru klúbbarnir.

Gleðilegt íslenskt golfsumar

Guðrún & Böðvar.