Fréttir

Einar Tryggvason, vallarstjóri, er kylfingur vikunnar
Miðvikudagur 21. júlí 2010 kl. 12:46

Einar Tryggvason, vallarstjóri, er kylfingur vikunnar

Einar Tryggvason, vallarstjóri á Haukadalsvelli, er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Hann er giftur Ágústu Þórisdóttur og eiga þau og reka Haukadalsvöll ásamt Gistiheimilinu Geysi en völlurinn hefur notið nokkurra vinsælda. Þrátt fyrir að vera vallarstjóri á einum af erfiðustu völlum landsins, þá er Einar ekki mikill kylfingur en hann er með 36 í forgjöf. Kylfingur.is fékk að kynnast Einar aðeins betur.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
„Fyrst prufaði ég golf á Selsvelli þegar hann var sex holur, sennilega fyrir tuttugu og eitthvað árum. Þangað var ég dreginn af Óskari Pálssyni formanni GHR, en við unnum við smíðar á Flúðum þegar þetta var. Árið 2003 fórum við fjölskyldan svo út í það að búa til golfvöll hér við Geysi eftir hugmyndum Edwins Rögnvaldssonar golfvallarhönnuðar. Hef lítið spilað golf síðan.“

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
„Já, prufaði ýmislegt m.a. karate, júdó og sleggjukast, en allt án nokkurs árangurs.“

Hver eru helstu markmiðin?
„Í golfinu er það að snúa sér að því af alvöru og stefni á að komast undir 10 í forgjöf. Held að það sé svoldið töff. Til vara, að hafa bara gaman að þessu áfram.“

Helstu afrek í golfinu?
„Þið gerið ykkur grein fyrir því að þið eruð ekki að tala við alvöru golfara, en ætli besta afrekið sé ekki þegar ég spilaði á sama boltanum allan hringinn á Haukadalsvelli. Skorið er þó ekki til frásagnar.“

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
„Þegar ég þurfti 12 bolta til að komast af áttunda teig hér á Geysi.“

Ferðu í golfferð til útlanda í ár og ef þá hvert?
„Á ekki von á því.“

Hvað ætlar þú að gera til að lækka forgjöfina næsta sumar?
„Fara í kennslu og síðan að æfa mig. Búinn að prufa að kaupa nýtt og flott dót, já og tíglapeysuna en það hefur ekki virkað fyrir mig.“

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
„Stáltaugar, sbr. atvikið á áttunda teig um árið. Ég myndi segja að það væri náttúrlega veikleiki að geta ekkert í golfi.“

Ef þú mættir breyta einni golfreglu hverju myndir þú breyta?
„Það var nú byrjað að spila golf nokkru áður en ég byrjaði að spila. Ætli það hafi því ekki verið búið að sníða vankantana af reglunum fyrir nokkru.“

Atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Fótbolta, flottari læri.“

Hvert er eftirlætisliðið í enska boltanum og hvers vegna?
„Liverpool. Af hverju? Allir sigrarnir í sögunni, ja kannski ekki nýlega en hillurnar á Anfield eru sligaðar af gömlum verðlaunagripum!“

Hver er frægasta persónan sem þú er með í símanum?
„Það er örugglega Hafnfirðingurinn og handboltastjarnan Hanna Guðrún Stefánsdóttir.“

Hver er besti kylfingur landsins og hver er efnilegastur að þínu mati?
„Það eru mætir menn og konur að rökræða þetta alla daga og sjaldnast sammála. Læt þeim það eftir.“

Hvað finnst þér skemmti- og leiðinlegast við golf?
„Skemmtilegir meðspilarar. Leiðinlegast er hvað það er tímafrekt að ná upp einhverri getu í þessu.“

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
„Nei, sagan kemur síðar, því golfferillinn er tæplega hafinn.“

Fylgist þú mikið með golfi?
„Reyni að sjá eitthvað af mótunum og fylgjast með úrslitum svo ég sé viðræðuhæfur. Nú síðast Opna breska, þar sem Edwin golfvallarhönnuður lýsti ásamt Ólafi Þór Ágústsyni, vallarstjóra og ráðgjafanum okkar. Skyldu endur vera sjóveikar voru pælingar hjá Edwin sem áttu algjörlega heima í lýsingunni. Meira svona, svo vil ég fá að sjá framan í þá öðru hvoru, þar sem þeir pæla í golfi almennt.“

Staðreyndir:
Nafn: Einar Tryggvason
Klúbbur: GEY
Forgjöf: 36
Golfpokinn: Cleveland
Golfskór: Stundum
Golfhanski: Bara einhver úr óskilamunum
Markmið í golfinu: Komast undir 10 í forgjöf
Fyrirmynd: Engar sérstakar fyrirmyndir
Uppáhalds matur: Hrossalundir
Uppáhalds drykkur: Ballantine´s whisky
Ég hlusta á: Ég hlusta bara á Óla Þór
Besti völlurinn: Haukadalsvöllur
Besta skor (hvar): 133 högg á Haukadalsvelli
Besta vefsíðan: geysirgolf.is
Besta blaðið: Les Bændablaðið alltaf en önnur eiga það til að gleymast
Besta bókin: Margar góðar, geri ekki upp á milli þeirra.
Besta bíómyndin: Englar alheimsins